Tveir látnir og einn handtekinn

Lögregluþjónn í Halle.
Lögregluþjónn í Halle. AFP

Einn var handtekinn eftir skotárás í nágrenni við samkunduhús gyðinga í borginni Halle í Þýskalandi í morgun. Tveir létust í árásinni og eru aðrir grunaðir á flótta undan lögreglu.

Samkvæmt vitnum var einn árásarmannanna klæddur í herklæði og var með nokkur vopn á sér.

Skömmu eftir atvikið í Halle var önnur skotárás gerð í Landsberg, um 15 kílómetra austan við Halle. Samkvæmt erlendum fréttamiðlum er ekki ljóst hvort atvikin tengist.

Þrátt fyrir að einn árásarmanna hafi verið handtekinn biður lögregla fólk að sýna varúð og halda sig innan dyra.

Tveir létust í árásinni í morgun.
Tveir létust í árásinni í morgun. AFP

„Maður kom að kebabstaðnum og henti einhverju sem líktist handsprengju. Hún sprakk ekki og þá hóf hann skothríð,“ sagði vitni um mannskæða árásina í morgun.

„Sá sem stóð fyrir aftan mig hlýtur að hafa dáið. Ég faldi mig á klósettinu,“ bætti vitnið við.

Einn árásarmannanna reyndi að komast inn í samkunduhús gyðinga, sem er nálægt kebabstaðnum. Þangað komst hann ekki en talið er að allt að 80 manns hafi verið þar inni.

Halle er suðvestan við Berlín.
Halle er suðvestan við Berlín. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert