Fann fórnarlambið með því að skoða augun

Svarið lá í augum uppi hvar konuna væri að finna. …
Svarið lá í augum uppi hvar konuna væri að finna. Myndin er úr safni. AFP

Japanskur karlmaður, sem er sakaður um að hafa ráðist á og brotið kynferðislega gegn ungri tónlistarkonu, segist hafa komist að því hvar konuna væri að finna með því að skoða ljósmynd sem hún birti af sjálfri sér á samfélagsmiðli þar sem umhverfið sást speglast í augum hennar. 

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, er nú í haldi lögreglu. Fram kemur í japönskum fjölmiðlum, að maðurinn hafi tjáð lögreglu að hann hefði getað séð á sjálfunni, sem konan tók, nafn á lestarstöð þar sem hún var stödd umrætt sinn. 

Fram kemur á vef BBC, að maðurinn heiti Hibiki Sato og sé 26 ára gamall. Hann komst að því hvaða lestarstöð þetta var og ákvað að bíða eftir konunni, sem er 21 árs gömul og þekkt poppstjarna í heimalandinu. Hann elti hana heim til hennar þar sem hann réðst á hana í byrjun september. Hann var handtekinn síðar í sama mánuði.

Málið hefur vakið mikinn óhug og umræðu um eltihrella á netinu. 

Hver er að fylgjast með þér á samfélagsmiðlum?
Hver er að fylgjast með þér á samfélagsmiðlum? AFP

Sato sagði við lögreglu að hann væri mikill aðdáandi tónlistarkonunnar. Eftir að hafa náð að þysja inn að augum hennar notaði hann götukort Google til að finna lestarstöðina. Hann greindi lögreglu einnig frá því að hann hefði skoðað gaumgæfilega öll myndskeið sem konan birti á samfélagsmiðlum þar sem hún sést vera heima hjá sér. Hann kynnti sér m.a. hvar gluggatjöld væru staðsett og hvar náttúruleg birta kæmi inn um glugga íbúðarinnar svo hann gæti áttað sig á því á hvaða hæð hún bjó. 

Á meðal þess sem nú er rætt um í Japan er sú ómeðvitaða áhætta fólk er að taka með því að birta slíkt myndefni á samfélagsmiðlum, en myndirnar eru oftar en ekki í miklum gæðum. 

Eliot Higgins, sérfræðingur í netrannsóknum, segir að slík myndgæði geti boðið hættunni heim. Jafnvel minnstu smáatriði geti veitt fólki talsverðar upplýsingar, m.a. hvar myndin var tekin eða upplýsingar um fólkið á myndunum. 

„Ekki birta neitt á netinu sem þú vilt ekki að yfirmaður þinn, maki eða jafnvel þinn versti óvinur geti séð,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert