Gagnrýnendur innrásar handteknir

Mynd frá landamærum Sýrlands og Tyrklands en tyrkneski herinn fór …
Mynd frá landamærum Sýrlands og Tyrklands en tyrkneski herinn fór suður yfir landamærin í gær. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið rúmlega 20 manns sem eru sakaðir um „áróður hryðjuverkamanna“ vegna gagnrýni á innrás Tyrkja inn á svæði Kúrda í norður­hluta Sýr­lands.

Hakan Demir, ritstjóri vefsíðunnar Birgun var handtekinn fyrir að „hvetja fólk til haturs og fjandskapar“ eftir að hafa greint frá því að óbreyttir borgarar hefðu fallið í árásum Tyrkja.

Tyrknesk yfirvöld neita því að óbreyttir borgarar hafi fallið eða særst í árásum þeirra.

Demir var síðar látinn laus en vegabréfinu hans var haldið eftir.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á fundi með samflokksmönnum í …
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á fundi með samflokksmönnum í dag. AFP

Samkvæmt tyrkneska ríkismiðlinum Anadolu handtók lögreglan 21 í borginni Mardin í suðausturhluta Tyrklands, þar sem Kúrdar eru í meirihluta. Fólkið var einnig sakað um hryðjuverkaáróður.

Samkvæmt frétt AFP er ákaflega viðkvæmt og nánast bannað að gagnrýna hernað Tyrkja í landinu þannig að stjórnarandstöðuflokkar neyðast til að styðja hernað.

Mannréttindasamtök hafa á undanförnum árum bent á það að tjáningarfrelsið virðist eiga á brattann að sækja í Tyrklandi. Hefur það farið minnkandi eftir misheppnað valdarán í landinu fyrir þremur árum en í kjölfar þess var fjöldi stjórnarandstæðinga handtekinn.

mbl.is