Sonur fréttakonu stal senunni

Sonur Courtney Kube, fréttakonu á NBC, þurfti nauðsynlega að ræða …
Sonur Courtney Kube, fréttakonu á NBC, þurfti nauðsynlega að ræða við mömmu sína þegar hún var í miðri beinni útsendingu að útskýra nýjustu vendingar í málefnum Kúrda, Sýrlands og Tyrklands. Skjáskot/Twitter

Gærdagurinn var viðburðamikill fréttadagur, ekki síst vegna innrásar Tyrkja inn í Sýrland. Það var einmitt þess vegna sem Courtney Kube, fréttakona NBC-sjónvarpsstöðvarinnar, var í beinni útsendingu seinni partinn í gær. 

Hún var önnum kafin við að fara yfir nýjustu fréttir af innrásinni þegar ungur sonur hennar birtist skyndilega á skjánum. 

„Afsakið, börnin mín eru hérna. Bein útsending,“ sagði Kube brosandi þegar sonur hennar leitaði til hennar. Stuttu seinna var svo skipt yfir í kort af Sýrlandi og Tyrklandi. 

MSNBC birti myndskeið af uppákomunni á Twitter í gærkvöldi. „Stundum gerist eitthvað óvænt þegar þú ert að flytja nýjustu fréttir,“ segir í færslu fréttastofunnar, sem notar myllumerkið #workingmoms eða #vinnandimömmur. 

Kube útskýrði uppákomuna seinna þar sem hún sagði að loftárás Tyrkja í Sýrlandi hefðu sett strik í reikninginn varðandi skutl í leikskóla sem varð til þess að börnin hennar tvö komu með henni í beina útsendingu. 

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem börn setja svip sinn á beina útsendingu fréttatíma. BBC rifjar upp svipað atvik fyrir tveimur árum þegar börn Roberts Kelly ruddust óvænt inn á heimaskrifstofu hans þar sem hann var í beinni útsendingu BBC í gegnum Skype þar sem hann ræddi málefni Suður-Kóreu. 

Bæði atvikin má sjá hér að neðan:mbl.is