Tugþúsundir flýja sprengjuregn

Almennir borgarar flýja kúlnahríð í heimalandinu.
Almennir borgarar flýja kúlnahríð í heimalandinu. AFP

Tyrkneski herinn heldur uppi stöðugum loftárásum og eins á jörðu niðri á svæði Kúrda í norðurhluta Sýrlands. Tugþúsundir almennra borgara eru á flótta undan sprengjuregninu og vitað er um mannfall meðal þeirra.

Innrás Tyrkja hófst í gær í kjölfar þess að helsti bandamaður þeirra, forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ákvað að senda bandaríska hermenn frá landamærunum. 

Stjórnvöld í Tyrklandi segja að með þessu sé ætlunin að búa til „öruggt svæði“ í Sýrlandi þangað sem ætlunin er að senda allt að þrjár milljónir Sýrlendinga sem nú eru í Tyrklandi á flótta undan stríðinu í Sýrlandi.

Hjálpuðu okkur ekki í seinni heimsstyrjöldinni

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna neitar því að Bandaríkin hafi gefið grænt ljós á hernaðinn en Trump sagði sjálfur á blaðamannafundi að átök Tyrkja og Kúrda hafi staðið yfir öldum saman og hersveitir Kúrda hafi ekki hjálpað Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni þegar ráðist var inn í Normandí. Að öllu þessu sögðu líkar okkur vel við Kúrda, bætti forseti Bandaríkjanna við. Bæði demókratar og repúblikanar hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun Trumps.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sagði í dag að stjórnvöld í Tyrklandi og Sýrlandi ættu að ræða saman um málefni hersveita Kúrda í norðausturhluta Sýrlands sín á milli. Hann segir árásir Tyrkja yfir landamærin afurð stefnu Bandaríkjanna. 

Frétt BBC

Kona flýr ásamt börnum sínum frá Ras al-Ain í Hasakeh-héraði.
Kona flýr ásamt börnum sínum frá Ras al-Ain í Hasakeh-héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert