Tyrkir einir beri ábyrgðina

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra segir einungis Tyrki bera ábyrgð á ákvörðun sinni um að ráðast inn í norðurhluta Sýrlands, spurður út í það hvort hann teldi að ábyrgðin á stöðu mála gæti ekki einnig talist á herðum ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem tók ákvörðun um að flytja bandaríska hermenn frá því svæði sem Tyrkir herja nú á.

„Þetta er auðvitað einhliða ákvörðun Tyrkja, þeir bera ábyrgð á henni,“ segir Guðlaugur Þór og vísar svo til yfirlýsingar Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur neitað því að Bandaríkin hafi gefið „grænt ljós“ á innrás Tyrklands. Íslensk stjórnvöld hafa ekki komið gagnrýni á framfæri við Bandaríkjamenn vegna þeirrar ákvörðunar að draga herlið sitt af svæðinu.

„Hins vegar hefur Bandaríkjaforseti verið gagnrýndur mjög, meðal annars í heimalandi sínu af sínum eigin flokksmönnum, eins og við þekkjum. Stóra málið er auðvitað að þetta snýr að Tyrkjum, þetta er þeirra ákvörðun og þetta er þeirra framferði,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

Vonar að ISIS nái ekki fótfestu á ný

Utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands voru gagnrýndar og hernaður sem beindist að almennum borgurum fordæmdur.

Fjöldi Evrópuríkja hefur sömuleiðis gagnrýnt Tyrki og fordæmt aðgerðir þeirra. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur svarað fullum hálsi og hótar að senda yfir þrjár milljónir sýrlenskra flóttamanna sem nú eru í Tyrklandi til Evrópu, láti Evrópusambandið ekki af gagnrýni sinni.

„Við höfum gagnrýnt þetta harðlega og komið þeirri gagnrýni á framfæri, bæði beint við Tyrki og líka með „tvítum“ og yfirlýsingum. Við höfum miklar áhyggjur af ástandinu og erum ekki ein um það. Þú finnur það nú bara, hvernig viðbrögðin eru víða um heim. Viðbrögð okkar eru mjög í samræmi við það sem við sjáum í þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra segir að sér vitanlega hafi engin viðbrögð borist til íslenskra stjórnvalda frá Tyrkjum vegna þeirrar gagnrýni sem íslensk stjórnvöld hafa komið til skila.

Guðlaugur Þór hefur miklar áhyggjur af stöðu mála og segist óviss um hvernig mál þróist á næstunni. „Við vonum auðvitað það besta og fylgjumst með, en þetta gæti auðvitað haft þær afleiðingar að við sæjum enn meiri óróa á þessu svæði heldur en verið hefur að undanförnu,“ segir Guðlaugur Þór, sem vonast til þess að aðgerðir Tyrkja verði ekki til þess að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki íslams, ISIS, nái fótfestu á ný í norðurhluta Sýrlands.

„Margir hafa lagt mikið á sig til þess að halda þeim niðri, eins og við þekkjum.“

mbl.is