„Óþægindi í loftinu“ í Manchester

Talsverð ringulreið var í miðborg Manchester.
Talsverð ringulreið var í miðborg Manchester. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var að labba hér um miðbæinn og þá fór að heyrast sírenuvæl um alla borgina,“ segir Stefán Valmundarson. Hann er staddur í Manchester í Englandi þar sem hnífstunguárás var gerð í morgun og eru fimm særðir eftir hana.

Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester var árásarmaðurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, handtekinn og verður hann yfirheyrður síðar í dag.

Stefán segir að búðir í miðborg Manchester hafi verið lokaðar og starfsfólk staðið á götum úti. Lögreglubílar og sjúkrabílar hafi verið nánast alls staðar. „Borgin stoppaði bara í dágóða stund.“

Stefán segir að honum virðist sem fólk hafi verið nokkuð skelkað í kjölfar árásarinnar. 

„Það eru ákveðin óþægindi í loftinu.“

Hann segir gæslu í miðborginni mikla og allt sé enn lokað. „Það er örugglega verið að líta á þetta sem einhvers konar hryðjuverk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert