Þarf fleiri hermenn og þarf að nota þá

Josep Borrell sem tilnefndur hefur verið sem næsti utanríkismálastjóri ESB …
Josep Borrell sem tilnefndur hefur verið sem næsti utanríkismálastjóri ESB á fundinum í þingi sambandsins. AFP

Evrópusambandið þarf að hafa fleiri hermenn til umráða og vera reiðubúið að beita þeim um allan heim. Þetta sagði verðandi Josep Borrell, sem tilnefndur hefur verið í embætti utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, meðal annars fyrr í vikunni á fundi í þingi sambandsins þar sem fjallað var um tilnefningu hans.

Borrell sagði að Evrópusambandið gæti ekki leyft sér að verða „óviðkomandi“ í heimsmálunum hvar stórveldi eins og Bandaríkin og Kína réðu ferðinni. „Við höfum tólin til þess að stunda valdapólitík,“ sagði hann enn fremur. „Evrópusambandið þarf að læra að nota tungutak valdsins.“

„Við eigum að styrkja alþjóðlegt hlutverk Evrópusambandsins og auka getu okkar til þess að grípa til hernaðaraðgerða,“ sagði Borrell, sem gegnir embætti utanríkisráðherra Spánar fyrir hönd spænska Sósíalistaflokksins, sömuleiðis.

Kallaði Borrell eftir því að fjöldi hermanna sem heyra undir beina stjórn Evrópusambandsins yrði aukinn úr 3 þúsund í 55-60 þúsund hermenn.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert