Bandaríkjamenn uppfylli „siðferðislegar skyldur“ sínar

Fjölmenn mótmæli fóru fram í sýrlenska bænum Hasakeh í dag. …
Fjölmenn mótmæli fóru fram í sýrlenska bænum Hasakeh í dag. Sýrlensku lýræðisöflin (SDF) saka Bandaríkjamenn um að hafa vanrækt siðferðislegar skyldur sínar að verja Kúrda í Sýrlandi. AFP

Sýrlensku lýðræðisöflin (SDF) hvöttu í dag Bandaríkjamenn til að sinna „siðferðislegum skyldum“ sínum að verja Kúrda gegn árásum Tyrkja sem hafa staðið í fjóra daga.

„Bandamenn okkar höfðu lofað okkur vernd en skyndilega og án viðvörunar yfirgáfu þeir okkur með óverjandi ákvörðun að draga herlið sitt til baka frá landamærum Tyrkland,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum SDF sem eru leidd af Kúrdum. Tyrkir líta á SDF sem hryðjuverkasamtök.

„Við köllum eftir því að bandamenn okkar uppfylli siðferðislegar skyldur og loforð sín og verndi okkur með því að loka lofthelginni fyrir tyrkneskum herflugvélum,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

SDF-samtökin voru helstu bandamenn Bandaríkjamanna í stríðinu gegn Ríki Íslams í Sýrlandi. Talið er að um 11 þúsund liðsmenn SDF hafi látið lífið í stríðinu sem lauk í mars á þessu ári.

Innrás tyrkneska hersins inn í Sýrland hófst fyrir fjórum dögum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði hersveitum Bandaríkjanna að yfirgefa herstöðvar sínar við landamæri Sýrlands að Tyrklandi. Sú ákvörðun hefur verið harðlega gagnrýnd af Kúrdum og mörgum í alþjóðasamfélaginu.

Síðan þá hefur Trump þó varað Tyrki við því ganga lengur en það sem hann telur „yfir strikið“ (e. off limits) því þá muni hann leggja efnahag Tyrklands í rúst. Þá hefur hann haldið þeim möguleika opnum að leggja viðskiptaþvinganir á Tyrkland til að koma í veg fyrir að þeir gangi of langt í sókn sinni gegn Kúrdum í Sýrlandi.

SDF-samtökin gefa þó lítið fyrir slíkar hótanir og segja þær gagnlausar í baráttunni gegn yfirstandandi hernaði Tyrkja.

Síðustu fregnir herma að að minnsta kosti 45 óbreyttir borgarar hafi látist og mikill fjöldi sé alvarlega særður eftir átök á landamærum Sýrlands og Tyrklands síðan Tyrkir hófu lofthernað og sprengjuárásir á yfirráðasvæði Kúrda.

Meðlimur Asayesh, alþjóðaöryggissveita Kúrda, stendur vörð á mótmælunum í dag.
Meðlimur Asayesh, alþjóðaöryggissveita Kúrda, stendur vörð á mótmælunum í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina