Heyrði þegar hótelið hrundi

Hard Rock-hótelið hálfhrunið í morgunsárið.
Hard Rock-hótelið hálfhrunið í morgunsárið. Ljósmynd/Jónas Bjarnason

Þrír voru færðir á sjúkrahús eftir að hrundi úr hlið hótels í borginni New Orleans í Bandaríkjunum fyrir um klukkustund. Framkvæmdir stóðu yfir og var hótelið því gestalaust, en iðnaðarmenn voru þar að störfum og eru allir hinir slösuðu úr hópi þeirra. Ekki er vitað um líðan þeirra, en óttast að einhverjir gætu hafa farist.

Jónas Bjarnason er ásamt konu sinni í fríi í New Orleans, en þau hjónin voru að borða morgunmat á hóteli sínu í sömu götu þegar þau heyrðu ægilega skruðninga. „Við áttuðum okkur strax á að eitthvað mikið hefði gerst,“ sagði Jónas sem segist þó fyrst hafa talið að verið væri að rífa utan af húsinu. Svo reyndist ekki.

Á myndbandi sem deilt var á samskiptamiðlinum Twitter sjást iðnaðarmenn hlaupa eins og fætur toga úr byggingunni. Jónas segir björgunarmenn vera mætta á svæðið með hjálma og leitarhunda. Því líti út fyrir að um rústabjörgun sé að ræða og að yfirvöld óttist að einhverjir hafi orðið undir í hruninu.

mbl.is