Hópslagsmál við mótmæli í Noregi

Mótmælendur ganga fylktu liði niður Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar …
Mótmælendur ganga fylktu liði niður Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar í dag með kúrdíska fánann við hún. Um 4.000 manns tóku þátt í göngunni og fordæmdu innrás Tyrkja í Sýrland. Ljósmynd/Facebook-síða Kúrda í Þrándheimi

Á milli 20 og 30 manns áttu hlut að máli í hópslagsmálum í Bergen við vesturströnd Noregs síðdegis í dag þegar í brýnu sló milli mótmælenda gegn innrás Tyrkja í Sýrland og hóps ungmenna sem lýstu yfir stuðningi sínum við Tyrkland og Recep Tayyip Erdoğan forseta. Sendi lögregla níu bifreiðar á vettvang áður en lögregla og öryggisverðir gengu á milli mótmælenda og stuðningsmanna Erdoğans.

„Vettvangsstjórinn segir mér að 20 til 30 manns hafi tekið þátt í slagsmálunum,“ segir Tatjana Knappen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Bergen, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK nú síðdegis. „Eitt ungmennanna fékk högg í andlitið og blæddi undan,“ sagði hún enn fremur.

Enginn var handtekinn vegna átakanna en lögregla tók niður nöfn þeirra er þar höfðu sig í frammi. Í tilkynningu segir lögreglan ekki hafa verið sótt um leyfi fyrir mótmælunum og þau því verið ólögmæt.

Um 4.000 í göngu í Ósló

Í höfuðstaðnum Ósló tóku um 4.000 manns þátt í mótmælagöngu og héldu mótmælendur fylktu liði frá aðalbrautarstöðinni að utanríkisráðuneytinu með þjóðfána Kúrda á lofti auk þess sem sjá mátti spjöld á lofti með áletrunum á borð við „Stöðvum herför Tyrkja gegn Kúrdum“ og „Fordæmum fjöldamorð á Kúrdum í Tyrklandi“ en göngumenn hrópuðu meðal annars kröfu sína „Tyrkland burt frá Kúrdistan!“.

Lögreglan í Ósló skrifar á Twitter að mótmælin í borginni séu löglega haldin og bílaumferð og almenningssamgöngur ættu að mestu að komast leiðar sinnar þrátt fyrir mannfjölda í miðbænum.

„Okkur langar að sýna norska samfélaginu að við fordæmum innrás Tyrkja í Sýrland,“ segir Andam Aziz, sýrlenskur Kúrdi og talsmaður Lýðræðissamfélagsmiðstöðvar Kúrda (n. Kurdisk Demokratisk Samfunnssenter) í Noregi. Hann var staddur meðal fólksfjöldans við 7. júlítorgið í dag og ræddi við TV2 um baráttumál þjóðar sinnar.

Krefjast yfirlýsingar Søreide

„Einnig erum við hér saman komin til að krefjast þess að utanríkisráðherra Noregs [Ine Eriksen Søreide] gefi út skýra yfirlýsingu þess efnis að Noregur fordæmi þetta stríð. Við krefjumst þess að þeir [Noregur] stöðvi allan vopnaútflutning [til Tyrklands] og beiti Tyrki efnahagsþvingunum,“ segir Aziz enn fremur og er bent á að krafan um vopnasölu hafi þegar verið uppfyllt.

„Þar er bara verið að tala um nýjar pantanir. Við viljum að þeir stöðvi alla vopnaflutninga til Tyrklands tafarlaust,“ segir Aziz við TV2. „Við munum halda áfram [mótmælum] meðan á árás Tyrkja á Sýrland, Rojava [sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi] og Norður-Sýrland stendur. Við munum standa hér á strætum og mótmæla hvern einasta dag,“ segir Aziz að skilnaði.

NRK

TV2

ABC Nyheter

mbl.is