Kappaksturbifreið lenti á áhorfendum

Ljósmynd/Wikipedia.org

Karlmaður lést í Frakklandi í dag og fimm slösuðust þegar ökumaður bifreiðar sem tók þátt í kappakstrinum Rallye des Cardabelles í suðurhluta landsins ók á áhorfendur.

Fram kemur í frétt AFP að hinn látni hafi verið 19 ára gamall. Ökumaðurinn var að koma úr krappri beygju þegar slysið átti sér stað. Meiðsl eins hinna slösuðu eru alvarleg.

Fólkið sem varð fyrir bifreiðinni var statt á stað sem áhorfendum hafði verið bannað að vera á segir í fréttinni. Ökumaðurinn var einn þeirra sem slösuðust.

mbl.is