Leikarinn Robert Forster látinn

Leikarinn ástsæli Robert Forster lést sama dag og kvikmyndin El ...
Leikarinn ástsæli Robert Forster lést sama dag og kvikmyndin El Camino var frumsýnd þar sem hann fór með sitt síðasta hlutverk. Ljósmynd/Twitter

Bandaríski leikarinn Robert Forster, sem var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir túlkun sína á persónunni Max Cherry í kvikmyndinni Jackie Brown eftir Quentin Tarantino, er látinn 78 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein í heila.

BBC greinir frá.

Forster sem átti langan og farsælan feril sem leikari var þekktastur fyrir áðurnefnt hlutverk sitt í Jackie Brown sem og hlutverk sitt sem Ed Glebraith í Breaking Bad þáttaröðunum sem og framhaldi hennar, kvikmyndinni El Camino, sem var frumsýnd í gær, sama dag og Forster lést.

Forster var fæddur í Rochester í New York-ríki í Bandaríkjunum árið 1941 og hóf feril sinn í leiklist skömmu eftir útskrift úr háskóla.
mbl.is