Meirihluti gegn Brexit í tvö ár

Rúm þrjú ár eru liðin frá þjóðaratlkvæðagreiðslunni um aðild Breta …
Rúm þrjú ár eru liðin frá þjóðaratlkvæðagreiðslunni um aðild Breta að Evrópusambandinu, 19 dagar eru í að Bretar gangi út, ef allt gengur samkvæmt áætlun. AFP

Meirihluti Breta er andvígur því að ríkið gangi úr Evrópusambandinu, og hefur svo verið raunin síðustu tvö ár. Þetta sýna niðurstöður YouGov, stærsta könnunarfyrirtækis Bretlands, fyrir götublaðið Evening Standard.

Í 226 könnunum sem framkvæmdar hafa verið frá því sumarið 2017, hafa aðildarsinnar mælst með meirihluta í 204 en útgöngusinnar aðeins í sjö könnunum. Í þeim 15 sem upp á vantar hefur munurinn reynst innan skekkjumarka. Það sem af er ári hefur aðeins ein könnun gefið til kynna meirihluta fyrir útgöngu úr sambandinu, samanborið við 74 sem sýna meirihluta fyrir áframhaldandi aðild.

Þótt munurinn milli fylkinga sé marktækur, er hann ekki sérlega afgerandi. Þannig sýnir meðaltal kannana á seinni helmingi þessa árs að 53% þeirra sem taka afstöðu eru á móti útgöngu en 47% hlynnt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert