Tyrkir neita að hafa skotið á Bandaríkjamenn

Reykur stígur upp frá sýrlenski landamærabænum Ras al-Ain í gær.
Reykur stígur upp frá sýrlenski landamærabænum Ras al-Ain í gær. AFP

Tyrknesk hermálayfirvöld hafa neitað því að hafa skotið úr stórskotabyssum á bandaríska eftirlitsstöð í norðurhluta Sýrlands í gær, en bandarísk hermálayfirvöld segja að sprenging hafi orðið „nokkur hundruð metra“ frá varðstöð bandarískra hermanna í bænum Kobani.

Bandaríkjamenn vöruðu Tyrki við því að þeir væru reiðubúnir að grípa til varnaraðgerða, væri þeim ógnað. Hulusi Akar varnarmálaráðherra Tyrklands segir að svo hafi ekki verið. Ráðherrann segir, í yfirlýsingu sem ríkisfréttaveitan Anadolu í Tyrklandi birtir, að Tyrkir hafi svarað árás Kúrda á tyrkneska lögreglustöð nærri landamærinum.

„Allar nauðsynlegar ráðstafanir voru gerðar til þess að skaða ekki varðstöð Bandaríkjanna,“ egir ráðherrann og bætir við að tyrkneskir hermenn hefðu látið af stórskotaárásinni í varúðarskyni eftir að Bandaríkjamenn höfðu samband við þá.

Akar segir jafnframt að „nauðsynlegar samræmingaraðgerðir“ eigi sér stað milli stjórnstöðva tyrkneska heraflans og Bandaríkjamanna.

Tyrkir segjast í dag hafa náð landamærabænum Ras al-Ain á sitt vald, en Kúrdar neita því að hafa hörfað frá bænum og segja átök enn í gangi á milli sveita sinna og tyrkneskra hersveita. Þúsundir almennra borgara hafa flúið frá bænum.

Sýrlenskir hermenn á bandi Tyrkja biðja í bænum Ras al-Ain …
Sýrlenskir hermenn á bandi Tyrkja biðja í bænum Ras al-Ain í gær. AFP

Bandaríkjamenn vilja að Tyrkir láti af hernaði

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vill að Tyrkir hætti árásum sínum í Sýrlandi. Hann varar við því að það muni hafa „alvarlegar afleiðingar“ ef stjórnvöld í Ankara láti ekki af hernaðaraðgerðum. Á vef BBC er haft eftir Esper að Erdogan Tyrklandsforseti sé að grípa til „hvatvísra aðgerða“ og að hann hafi áhyggjur af öryggi fangelsanna þar sem liðsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams eru vistaðir.

Þá hefur Steven Mnuching, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, opinbera að Donald Trump forseti hafi heimilað embættismönnum að teikna upp áætlanir um „mjög umfangsmiklar“ efnahagsþvinganir í garð Tyrklands.

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

„Við getum slökkt á tyrkneska efnahaginum ef við þurfum þess,“ sagði Mnuchin. Trump sjálfur ræddi stöðuna í gær og sagði að Bandaríkjamenn „vildu ekki“ að Tyrkir dræpu margt fólk og ef Bandaríkjamenn þyrftu að nota efnahagsþvinganir væru þeir reiðubúnir til þess.

Tyrkir munu ekki draga úr

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lætur sér þó fátt um finnast. „Nú koma hótanir frá hægri og vinstri um að við eigum að hætta þessu,“ sagði hann í gær og bætti við: „Við munum ekki stíga til baka.“

Almennir borgarar, beggja vegna landamæra Tyrklands og Sýrlands, hafa fallið í átökunum frá því að þau hófust að frumkvæði Tyrkja í vikunni, eftir að Bandaríkjamenn tóku ákvörðun um að draga herafla sinn frá landamærasvæðinu í kjölfar símtals Trumps og Erdogans.

Erdogan og Trump á blaðamannafundi í maí síðastliðnum.
Erdogan og Trump á blaðamannafundi í maí síðastliðnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert