Biður Norðmenn að pissa í sturtu

Hin fræga stytta Manneken Pis í Brussel er reyndar ekki …
Hin fræga stytta Manneken Pis í Brussel er reyndar ekki í sturtu en sóaði 2.500 lítrum af vatni á sólarhring þar til frárennsli hennar var breytt þannig að vatnið endurnýttist sem neysluvatn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Markus Koljonen

„Við verðum að hætta þessari sóun,“ segir Frode Hult, forstöðumaður vatns- og fráveitudeildar Óslóar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og vísar einfaldlega til vatns, þessarar blautu auðlindar sem flestir Norðurlandabúar líta á sem sjálfsagða.

Hult segir þó blikur á lofti eftir því sem loftslagsváin, sem allir jarðarbúar standa nú frammi fyrir, herðir tak sitt. Forstöðumaðurinn vísar í tölur frá norsku hagstofunni Statistisk sentralbyrå (SSB) og bendir á að hver Norðmaður noti samkvæmt tölfræði stofunnar að meðaltali 182 lítra af vatni dag hvern, nær tvöfalt meira en nágrannarnir í Danmörku.

„Getum til dæmis pissað í sturtunni“

Hult bendir á að í fyrrasumar hafi hitabylgja í Noregi orðið til þess að spara þurfti vatn í Ósló og bárust SMS-skeyti frá borginni í alla síma íbúanna þar sem þeir voru brýndir til að láta af allri óþarfa vatnsnotkun. Hult lætur þó ekki við það sitja að kvarta yfir vatnssóun borgarbúa heldur bendir á leiðir til úrbóta: „Við getum til dæmis pissað í sturtunni,“ segir forstöðumaðurinn blákalt.

„Pissað í sturtunni?“ hváir fréttamaður NRK, „gerirðu þér ljóst að fólki á eftir að svelgjast á kaffinu þegar það heyrir þetta?“

„Já, en engu að síður er þetta heilræði. Við getum líka burstað tennurnar í sturtunni sem væri mjög umhverfisvænt. Sveitarfélögin nota óheyrilega mikla raforku við að hreinsa vatnið,“ segir forstöðumaðurinn og bendir á aðra staðreynd sem leitt gæti til þess að vatn yrði einfaldlega rándýrt í framtíðinni, en hún er sú að neysluvatnsrör í Noregi eru meira og minna margra áratuga gömul og þriðjungur þeirra hriplekur.

Þrándheimsbúar í vafa um sturturáðið

Marius Fjellås, sem ásamt samstarfsmanni sínum Bjørn Mo leitar uppi og gerir við lek vatnsrör í Þrándheimi, segir verðmiðann fyrir að skipta út öllum lekum vatnsrörum í Noregi hljóða upp á 200 milljarða norskra króna, jafnvirði rúmlega 2.750 milljarða íslenskra.

„Þetta er stórvandamál. Mikið vatn fer til spillis vegna lekra röra,“ segir Fjellås við NRK. Þeir Þrándheimsmenn eru þó á báðum áttum þegar hollráð Frode Hult í Ósló er borið undir þá. „Það er nú ekki eitthvað sem ég ætla að taka upp,“ svarar Fjellås. „Við höfum aðgang að fleiri vatnsbólum hér en Ósló hefur [90% alls neysluvatns í Ósló kemur úr Maridals-vatninu] svo hér er enginn hörgull á vatni. En auðvitað er það gott ef okkur auðnast að spara dálítið,“ segir Fjellås að lokum.

NRK birtir svo hin átta gullnu ráð Frode Hult fráveitudeildarforstöðumanns til að spara dropann dýrmæta á tímum loftslagsvár, þurrka og hnattrænnar hlýnunar:

Skrúfaðu fyrir vatnið á meðan þú burstar tennurnar

Pissaðu í morgunsturtunni

Notaðu sparhnappinn á klósettinu (minna vatn við niðurskolun)

Þurrkaðu matarleifar af leirtaui án þess að skola áður en þú setur það í uppþvottavélina

Fylltu uppþvottavélina áður en þú setur hana í gang

Kauptu upp- og tauþvottavélar sem nota lítið vatn

Ekki vökva grasflötina með úðara, hann notar um 1.000 lítra á klukkustund

Notaðu garðkönnu þegar þú vökvar blóm og runna í garði þínum

mbl.is

Bloggað um fréttina