Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna segir af sér

Kevin McAleenan sór embættiseið sinn fyrir sex mánuðum síðan en …
Kevin McAleenan sór embættiseið sinn fyrir sex mánuðum síðan en hefur nú sagt af sér embætti heimavarnaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Kevin McAleenan starfandi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna hefur sagt af sér. Donald Trump Bandríkjaforseti greindi frá þessu fyrir helgi. Bætist því enn í hóp ráðherra eða hátt settra embættismanna í ríkisstjórn Trump sem hafa verið reknir eða hætt frá því að Trump varð forseti.

„Kevin McAleenan hefur staðið sig stórkostlega sem starfandi heimavarnaráðherra. Við höfum unnið vel saman og fólksflutningum yfir landamærin hefur fækkað mikið,“ tísti Trump á föstudaginn var.

Trump sagði ástæðu fyrir uppsögn McAleenan vera þá að hann vilji eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni og hefja störf í einkageiranum.

„Til hamingju Kevin með frábæran árangur. Ég mun kynna nýjan starfandi heimavarnaráðherra í næstu viku. Það eru margir frábærir umsækjendur,“ bætti Trump við.

McAleenan var starfandi heimavarnaráðherra í sex mánuði og tók við af Kirstjen Nielsen sem sinnti embættinu í eitt og hálft ár.

Trump og McAleenan unnu saman að því að draga úr fólksflutningum frá Hondúras, Gvatemala og El Salvador til Bandaríkjanna með aðstoð Mexíkó.

Landamæraverðir handtóku eða stöðvuðu för nærri milljón einstaklinga sem við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó á síðustu tólf mánuðum og hefur sú tala ekki verið hærri í áratug.

mbl.is