Möguleg leið en varar við bjartsýni

AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi ríkisstjórn sinni frá því í dag að mögulegt væri að landa samningi við Evrópusambandið um hvernig staðið yrði að útgöngu landsins úr samabndinu. Möguleg leið lægi fyrir í þeim efnum.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að Johnson hafi greint ráðherrum sínum frá framgang viðræðnanna við Evrópusambandið sem verið hafa í gangi um helgina. Bretar þyrftu að vera undir það búnir að yfirgefa sambandið í lok mánaðarins.

Haft er eftir talsmanni forsætisráðuneytisins að Johnson hafi sagt ráðherrunum að fyrir lægi fær leið til þess að tryggja hagsmuni Bretlands, virða friðarsamninginn vegna Norður-Írlands og ganga úr sambandinu 31. október.

Varaði Johnson þó einnig við of mikilli bjartsýni í þessum efnum. Michel Barnier, aðalsamnongamaður Evrópusambandsins, sagði í dag að margt væri enn óunnið áður en hægt yrði að sigla málinu í höfn. Fulltrúar beggja aðila hafa haldið spilunum þétt að sér og hefur verið lögð áhersla á að ekkert leki út um efni viðræðnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert