Óhreint mjöl í pokahorninu

Sá sem fór fyrir hópi sérfræðinganna sem ráðlöggðu fólki að …
Sá sem fór fyrir hópi sérfræðinganna sem ráðlöggðu fólki að draga ekki úr kjötáti lét ekki vita af styrk sem hann fékk fyrir grein sem dró í efa skaðsemi sykurs. Ljósmynd/Colourbox

Síðustu áratugi hefur fólki verið ráðlagt að draga úr neyslu á rauðu og unnu kjöti til að draga úr líkunum á að verða hjartasjúkdómum, krabbameini og öðrum lífsstílssjúkdómum að bráð. Vísað hefur verið í ýmsar rannsóknir þessu til stuðnings.

Síðasta dag septembermánaðar setti alþjóðlegur hópur sérfræðinga sig hins vegar á móti þessum ráðleggingum og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að hvetja til minni neyslu á rauðu og unnu kjöti. Gengu sérfræðingarnir svo langt að ráðleggja fólki að halda áfram núverandi neyslu á kjötinu, í grein í fræðitímaritinu Annals of Internal Medicine.

Greindi ekki frá styrknum

Þegar umtöluð grein kom fyrst út var því haldið fram að þeir sem stóðu að baki henni hefðu ekki fengið nein fjárframlög frá fyrirtækjum eða hagsmunahópum, sem gætu þá mögulega verið að reyna að ýta undir neyslu á kjöti því það væri þeim fjárhagslega í hag, síðustu þrjú árin. Nokkrum dögum eftir útgáfu greinarinnar kom hins vegar í ljós að dr. Bradley C. Johnston, sem fór fyrir hópi sérfræðinganna, hefði staðið að baki svipaðri grein þar sem reynt var að draga í efa ráðleggingar til almennings um að borða minna af unnum sykri.

Sú grein, sem kom út í desember 2016 og því innan þriggja ára rammans, var styrkt af bandarísku hagsmunasamtökunum ILSI sem styrkt eru af landbúnaði, lyfjafyrirtækjum og matvælaframleiðendum á borð við McDonald’s, Coca-Cola og PepsiCo. Hafa ILSI-samtökin lengi verið ásökuð um að grafa undan ráðleggingum yfirvalda er varðar heilsu almennings til þess að bæta hag fyrirtækjanna sem standa að baki hópnum.

New York Times hefur hins vegar eftir dr. Johnston að hann hafi fengið peninginn fyrir téðri grein frá 2016 árið 2015 og því ekki þurft að láta vita af styrknum. Því er Marion Nestle, prófessor við New York-háskóla, ekki sammála.

„Fræðirit krefjast opinskárrar greinargerðar og það er alltaf betra að gera að fullu grein fyrir tengslum,“ sagði hann við NYT. „Jafnvel ef ILSI hafði ekkert að gera með kjötrannsóknirnar – og það eru engin sönnunargögn sem ég veit af sem benda til annars – bendir fyrri grein hans til þess að Johnston byggi feril sinn á því að rífa niður fyrri hugmyndir um næringu.“

Ýtarlega umfjöllun um ráðleggingar á neyslu kjöts má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »