Pentagon hyggst starfa með Bandaríkjaþingi

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, greindi frá því í dag að ráðuneyti hans hefði í hyggju að starfa með rannsókn bandaríska þingsins á því hvort Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði reynt að fá stjórnvöld í Úkraínu til þess að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og þátttakanda í forvali bandarískra demókrata vegna forsetakosninganna á næsta ári, og syni hans Hunter Biden vegna setu þess síðarnefnda í stjórn úkraínsks orkufyrirtækis.

Fram kemur í frétt AFP að ákvörðun Espers væri þvert á þá stefnu Trumps að greiða ekki götu rannsóknarinnar.

Esper sagði að varnarmálaráðuneytið myndi leggja sig fram við að verða við kröfum Bandaríkjaþings um að fá afhent gögn varðandi hernaðaraðstoð við Úkraínu en Trump er sakaður um að hafa sett rannsókn á Bidenfeðgum sem skilyrði fyrir áframhaldandi aðstoð.

„Við munum gera allt sem við getum til þess að vinna með þinginu,“ sagði Esper við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS.

Hins vegar sagði Esper við fjölmiðla í dag að ríkisstjórnin gæti sett hömlur á þær upplýsingar sem hægt væri að veita.

Forsetaskrifstofa Trumps lýsti því yfir fyrir fáeinum dögum að hún ætlaði ekki að vinna með neðri deild Bandaríkjaþings, hvar demókratar hafa meirihluta, og að tilraunir til þess að koma forsetanum úr embætti væru ólöglegar og í andstöðu við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Demókratar kröfðust þess fyrir viku að fá gögn afhent frá varnarmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert