Spáð kosningasigri Laga og réttlætis

Leiðtogi Laga og réttlætis, Jaroslaw Kaczynski, fær blóm eftir að …
Leiðtogi Laga og réttlætis, Jaroslaw Kaczynski, fær blóm eftir að útgönguspá lá fyrir. AFP

Stjórnmálaflokkurinn Lög og réttlæti (PiS), sem fer fyrir núverandi ríkisstjórn Póllands, fékk flest atkvæði í þingkosningunum sem fram fóru í dag ef marka má útgönguspá. Samkvæmt henni hlaut flokkurinn 43,6% atkvæða og 239 þingsæti.

Fram kemur í frétt AFP að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Borgarabandalagið, hafi hins vegar komið næstur með 27,4% og 130 þingsæti. Þá kemur vinstrabandalagið með 11,9% og 43 sæti. Útgönguspáin var framkvæmd af fyrirtækinu Ipsos.

AFP

Lög og réttlæti hefur lagt áherslu á umfangsmiklar aðgerðir í velferðarmálum og andstöðu við réttindabaráttu hinsegin fólks. Leiðtogi flokksins, Jaroslaw Kaczynski, sagði við stuðningsmenn sína í kvöld að mikil vinna væri fram undan. 

„Pólland verður að breytast meira og það verður að breytast til hins betra,“ sagði Kaczynski enn fremur. Pólski þjóðarflokkurinn og bandamenn hans hljóta 9,6% atkvæða og 34 þingsæti og Bandalagið, nýr frjálshyggjuflokkur, hlýtur 6,4% og 13 sæti.

mbl.is