Stefnir í að stjórnarflokkarnir haldi velli

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi PiS.
Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi PiS. AFP

Kosið er til þings í Póllandi í dag. Skoðanakannanir benda til þess að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) fari með sigur af hólmi. Þótt flokkurinn gæti tapað þingmeirihluta sínum mælast hann og samstarfsflokkar með góðan meirihluta í nýjustu könnunum.

Flokkurinn hefur síðustu vikur gert hinsegin fólk að einu helsta umtalsefni kosningabaráttunnar og sagt að frjálsu pólsku samfélagi stafi ógn af samfélagi hinsegin fólks.

„Kristni er hluti af þjóðareinkenni okkar og [kaþólska] kirkjan er og var eini boðari sameiginlegra gilda í Póllandi. Án hennar höfum við [...] níhílisma,“ sagði Jaroslaw Kaczynski, flokksformaður PiS og eiginlegur leiðtogi landsins, en hann hefur af einhverjum sökum ekki viljað gegna embætti forsætisráðherra.

Næststærstur flokka mælist Borgarabandalagið (KO), flokkur Donalds Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem var áður forsætisráðherra Póllands. Mælist hann með um fjórðungsfylgi, sem hann sækir aðallega til þéttbýlis, ólíkt stjórnarflokknum PiS sem á mestu fylgi að fagna í hinum dreifðu byggðum.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi formaður helsta stjórnarandstöðuflokksins, …
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi formaður helsta stjórnarandstöðuflokksins, KO, er ekki síður kirkjunnar maður. AFP

Ekkert ESB-ríki tekið við fleiri innflytjendum

Hagkerfi Póllands þykir í góðum málum og hefur atvinnuleysi í landinu aldrei mælst minna, eða 5 prósent. Af þeim sökum hefur fjöldi innflytjenda flutt til Póllands og gengið í störf sem illa hefur gengið að manna. Raunar hefur ekkert land Evrópusambandsins veitt fleirum utan sambandsins dvalarleyfi undanfarin ár en Pólverjar, en slíkt kann að hljóma kaldhæðnislega í ljósi meintrar harðrar innflytjendastefnu landsins og andstöðu við móttöku flóttamanna. 680.000 slík leyfi voru til að mynda veitt árið 2017, langflest til Úkraínu en íbúar þar eru flestir hvítir og kristnir, og kann hundurinn að liggja þar grafinn.

„PiS annast vinnandi fólk. Flokkurinn hefur hækkað lágmarkslaun og komið á 500+ barnabótunum,“ segir Michal, 34 ára rafvirki og stuðningsmaður PiS, í samtali við fréttaveituna AFP. 500+ barnabæturnar, sem Michal vísar til, eru kerfi sem komið var á fyrir tveimur árum og felur í sér að foreldrar fái 500 pólsk slot, jafnvirði um 16.000 króna, fyrir hvert barn umfram eitt, á þeirra framfæri, án nokkurra skerðinga.

„Á alþjóðasviðinu hefur PiS staðið upp fyrir Póllandi, í stað þess að fylgja í blindni því sem Þjóðverjar og Frakkar vilja,“ bætti rafvirkinn við, en pólsk stjórnvöld hafa einmitt átt í deilum við önnur evrópsk ríki um ýmislegt síðustu ár, svo sem lausnir á flóttamannavandanum, sem Pólverjar hafa látið afskiptan, og tilraunir framkvæmdavaldsins til að hafa áhrif á dómsvaldið, sem stofnanir Evrópusambandsins segja aðför að réttarríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert