Telja að 400.000 manns gætu þurft að flýja

Frá bænum Tal Tamr í Sýrlandi í gær, en þangað …
Frá bænum Tal Tamr í Sýrlandi í gær, en þangað eru margir flóttamenn frá landamærabæjunum Tell Abiad og Ras al-Ain komnir, í skjól frá innrás tyrkneskra hersveita. AFP

Hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðausturhluta Sýrlands hafa þegar orðið til þess að yfir 130.000 óbreyttir borgarar hafa neyðst til þess að flýja heimili sín. Þetta segja Sameinuðu þjóðirnar í dag, og búast þær við því að áframhaldandi hernaður gæti orðið til þess að sú tala þrefaldist.

Jens Laerke, talsmaður samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna um mannúðarmál (OCHA), segir í tölvupósti til fréttastofu AFP að stofnunin vinni nú að áætlunum um mannúðaraðstoð sem geri ráð fyrir því að 400.000 manns neyðist til að leggja á flótta frá svæðunum.

Á föstudag gáfu Sameinuðu þjóðirnar það út að fjöldi þeirra sem hefðu þurft að leggja á flótta frá þeim svæðum þar sem Tyrkir sækja nú fram á landamærunum, í kringum bæina Tell Abiad og Ras al-Ain væri kominn yfir 100.000 manns, en í dag var það gefið út að fjöldi flóttafólks frá svæðinu væri kominn yfir 130.000.

„Nákvæmar tölur er ekki hægt að fá fullvissu um,“ segir í uppfærðu matsskjalinu, en flestir þeirra sem lagt hafa á flótta hafa fengið inni hjá ættingjum. Vaxandi fjöldi hefur þó safnast saman í flóttamannaathvörfum, meðal annars í skólum.

Ungur piltur, sem þurfti að flýja heimili sitt í bænum …
Ungur piltur, sem þurfti að flýja heimili sitt í bænum Ras al-Ain með fjölskyldu sinni, sést hér með matarpakka frá flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert