Tjáir sig loks um ásakanir Trumps

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og faðir Hunters Biden.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og faðir Hunters Biden. AFP

Hunter Biden hefur ákveðið að segja sig frá stjórnarsetu í kínverska fjárfestingafélaginu BHR 31. október í kjölfar þess að seta hans í stjórn félagsins og úrkaínska orkufyrirtækisins Burisma varð að pólitísku deilumáli í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti stjórnvöld í Úkraínu til þess að rannsaka Biden og föður hans, Joe Biden fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og þátttakanda í forvali bandarískra demókrata vegna forsetakosninganna á næsta ári, vegna setu hans í stjórn orkufyrirtækisins. Hafa demókratar á Bandaríkjaþingi í kjölfarið hafið rannsókn á samskiptum Trumps og ríkisstjórnar hans við úkraínska ráðamenn.

Hunter Biden hefur ekki tjáð sig um málið til þessa en í yfirlýsingunni í dag kemur fram að hann hafi stundað viðskipti sín í góðri trú. Hann hafi aldrei átt von á þeirri hrinu rangra ásakana sem dunið hefðu á bæði honum og föður hans frá Trump.

Enn fremur kemur fram ýfirlýsingunni, sem fór í gegnum lögmann hans, að Hunter hafi átt í þessum viðskiptum alfarið sjálfur. Hann hafi hvorki talið viðeigandi að ræða þau við föður sinn né hafi hann gert það. Hann hætti í stjórn Burisma í apríl.

Lögð er áhersla á það í yfirlýsingunni að ítarlegar rannsóknir hafi ekki leitt neitt sem benti til þess að Hunter Biden hefði gerst sekur um nokkuð ólögmætt í þau fimm ár sem hann sat í stjórn orkufyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert