Warren lýgur upp á Zuckerberg

Elizabeth Warren og Mark Zuckerberg.
Elizabeth Warren og Mark Zuckerberg. AFP

Elizabeth Warren, einn frambjóðenda demókrata til forsetaembættis í Bandaríkjunum, deilir nú kostaðri auglýsingu á Facebook þar sem hún segir Mark Zuckerberg, stofnanda og forstjóra Facebook, hafa lýst yfir stuðningi við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Um falsfrétt er að ræða, eins og Warren bendir sjálf á nokkrum línum neðar. Auglýsingunni er ætlað að vekja athygli á þeirri staðreynd að Facebook leyfi stjórnmálamönnum, líkt og Trump sjálfum, að dreifa auglýsingum sem innihaldi óumdeilanleg ósannindi. Nick Clegg, yfirmaður hjá Facebook og fyrrum varaforsætisráðherra Bretlands, greindi frá því á dögunum, aðspurður, að reglur fésbókar um bann við kostuðum falsfréttum ætti nefnilega ekki við um stjórnmálamenn.

„Ef Trump lýgur í sjónvarpi neita flestar stöðvar að birta það. En Facebook þiggur bara peningana frá Trump,“ segir í auglýsingunni, sem beint er að kjósendum vestanhafs. 

Auglýsingin umtalaða.
Auglýsingin umtalaða. Skjáskot/Facebook

Warren hefur verið harðorð í garð stórfyrirtækisins, sagt ítök þess of mikil og lofað að skipta fyrirtækinu upp komist hún til valda, líkt og gert var við olíufélagið Standard Oil árið 1911, en eigandi þess var John D. Rockefeller sem er lesendum Andrésblaða að góðu kunnur.

Warren og aðrir frambjóðendur demókrata hafa orðið fyrir barðinu á kosningateymi forsetans ósannsögla, en síðustu daga hefur það dreift auglýsingu þar sem því er haldið fram að Joe Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og einn forsetaframbjóðenda demókrata nú, hafi lofað úkraínskum stjórnmálamönnum gull og grænum skógum fyrir að reka saksóknara sem rannsakaði son hans. Engin gögn styðja hins vegar þennan málflutning og bað kosningateymi Biden því Facebook, og aðra samfélagsmiðla, að fjarlægja auglýsinguna.

Í bréfi frá Facebook, sem stílað er á kosningateymi Biden, segir hins vegar að auglýsingin brjóti ekki gegn stefnu fyrirtækisins, og er það rökstutt með ást fésbókar á „tjáningarfrelsi, virðingu fyrir lýðræðisferlinu og trúnni á að í þroskuðum lýðræðisríkjum með frjálsa fjölmiðla sé stjórnmálaumræða þegar mest umdeildasta form tjáningar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert