Fannst látin á heimili sínu

Sulli var áður í hljómsveitinni f(x).
Sulli var áður í hljómsveitinni f(x). AFP

Þekkt K-poppstjarna, sem hefur lengi verið fórnarlamb eineltis á netinu, fannst látin á heimili sínu í dag, að sögn lögreglunnar í Suður-Kóreu.

K-popp er tónlistarstefna sem á rætur sínar að rekja til Suður-Kóreu og varð fyrst heimsþekkt með strákabandinu H.O.T. árið 1996. 

Umboðsmaður Sulli, sem áður var í stelpnasveitinni vinsælu f(x), fann hana látna á heimili hennar í úthverfi Seúl í morgun. Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að Sulli, sem var aðeins 25 ára gömul, hafi glímt við þunglyndi. Banamein hennar liggur ekki fyrir en er í rannsókn.

Sulli, sem hét réttu nafni Choi Jin-ri, var þekkt fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna og kostaði sú barátta hana hrottalegt einelti og áreitni á netinu. Hún kom fyrst fram árið 2009 með f(x) og varð hljómsveitin fljótt eitt þekktasta og vinsælasta kvennahljómsveit heims.

Hún ákvað að leggja framann á hilluna árið 2014 vegna eineltisins og hætti í hljómsveitinni ári síðar. Sulli var mjög virk á samfélagsmiðlum og stutt síðan hún stýrði þáttaröð í sjónvarpi þar sem hún ræddi við þekkt fólk um reynslu þess að einelti á netinu.

mbl.is