Lífstíðardómur fyrir morðtilraunir við Westminster

Khater ók niður vegfarendur á silfurlituðum Ford Fiesta.
Khater ók niður vegfarendur á silfurlituðum Ford Fiesta. AFP

Salih Khater, þrítugur maður sem ók niður fjölda manns fyrir utan breska þingið í ágúst á síðasta ári, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir voðaverkið. Dómari í Lundúnum kvað upp þennan dóm í dag, en lífstíðardómur sem þessi þýðir að Khater mun sitja inni í að minnsta kosti 15 ár.

„Ótvíræð ætlun þín var að myrða eins margt fólk og hægt var og breiða út ótta og skelfingu,“ sagði dómarinn Maura McGowan við uppkvaðningu dómsins í morgun.

Enginn lést í tilræði Khater, en dómarinn sagði ljóst að ætlun hans hefði verið að drepa fólk og leika þar með eftir gjörðir hryðjuverkamanna sem hafa beitt ökutækjum í mannskæðum árásum sínum. Khater er breskur ríkisborgari, en hann fæddist í Súdan og fékk alþjóðlega vernd í Bretlandi árið 2010.

Salih Khater.
Salih Khater. AFP

Brunaði með einbeittum hætti á hlaupandi mann og hjólafólk

Í frétt AFP um dóminn segir að við réttarhöldin yfir manninum hafi því verið lýst hvernig hann ók um torg við þingið í Westminster áður en hann brunaði af stað og ók niður skokkara. Að því loknu þaut hann í átt að hópi fjórtán hjólreiðamanna og ók þá alla niður áður en hann brunaði í átt að tveimur einkennisklæddum lögreglumönnum sem stóðu vörð við öryggishindrun við þingið. Stukku þeir í burtu til að forða sér frá tjóni.

Skokkarinn og sex hjólreiðamenn slösuðust í tilræðinu, sem Khater sjálfur sagði að hefði verið slys. Sérfræðingur í slysum rýndi í myndbandsupptökur af akstrinum við réttarhöldin og taldi að Khater hefði stýrt bílnum með mikilli einbeitingu í átt að fólkinu.

Við réttarhöldin kom einnig fram að degi fyrir árásina hefði Khater, sem bjó í Birmingham, verið hafnað um að fá breskt vegabréf í hendur. Eftir að sú niðurstaða lá fyrir ók hann beint til Lundúna, þar sem árásin átti sér stað degi síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert