Neita að handtaka grunaðan ISIS-liða

Frá al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi.
Frá al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. AFP

Héraðsdómurinn í Ósló í Noregi hafnaði í morgun kröfu norskrar konu, sem dvelur í flóttamannabúðunum al-Hol í Sýrlandi, og er talin hafa starfað með samtökunum sem kenna sig við Ríki íslams, um að hún yrði handtekin svo hún gæti snúið aftur til Noregs með veikt barn sitt.

Krafa konunnar var að norsk stjórnvöld létu handtaka hana og hún yrði send til Noregs þar sem hún yrði yfirheyrð fyrir þátttöku sína í hryðjuverkum. Tilgangurinn er, að sögn lögmanns hennar, að bjarga lífi fjögurra ára gamals sonar hennar sem sagður er alvarlega veikur.

Konan, sem dvelur með tvö börn sín í búðunum er með stöðu grunaðs vegna þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. Staða barna hennar hefur verið talsvert til umræðu í Noregi og hvort flytja eigi þau þangað, en annað þeirra er alvarlega veikt.

Nils Christian Nordhus lögmaður konunnar segir í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang að niðurstaðan sé sorgleg. „Við teljum að hún eigi rétt á að verða yfirheyrð og útskýra sitt mál,“ segir hann.

Konan hefur haft stöðu grunaðs frá því í ágúst síðastliðnum, staðfestir talsmaður norsku öryggislögreglunnar, PST, í samtali við norska dagblaðið Aftenposten. Konan er grunuð um brot á þeirri grein norsku laganna sem snýr að þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. 

Aðstæður konunnar hafa verið talsvert til umfjöllunar í norskum fjölmiðlum og á norska Stórþinginu, en fyrir rúmri viku felldi það tillögu um að drengurinn yrði fluttur til Noregs ásamt móður sinni og hinu barninu. Haft hefur verið eftir lögmanni konunnar að drengurinn gæti dáið, fengi hann ekki meðhöndlun í Noregi.

Utanríkisráðherra Noregs, Ine Eriksen Søreide, hefur sagt að móðirin hafi afþakkað læknisaðstoð fyrir drenginn í flóttamannabúðunum. Søreide fundaði með ríkisstjórninni á föstudaginn um mál konunnar og annarra Norðmanna sem taldir eru hafa tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi í Sýrlandi.

Áðurnefnd tillaga frá þingmönnum Græna umhverfisflokksins, MDG, var á þann veg að stórþingið færi þess á leit við rík­is­stjórn­ina að barnið yrði sótt í flótta­manna­búðirn­ar eins fljótt og auðið væri af mannúðarástæðum. Um væri að tefla líf eða dauða al­var­lega veiks barns. „Einnig að syst­ir barns­ins sem er þriggja ára og móðir þeirra sem er 29 ára og er und­ir rann­sókn norsku ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar fyr­ir þátt­töku sína í starf­semi hryðju­verka­sam­tak­anna ISIS,“ seg­ir í til­lög­unni.

Þing­menn MDG, Sósíal­íska vinstri­flokks­ins og Rauða flokks­ins, Rødt, studdu til­lög­una en það dugði ekki til og var hún felld. Aft­ur á móti var til­laga Verka­manna­flokks­ins samþykkt, en hún hljóðar upp á að Stórþingið fari þess á leit við rík­is­stjórn­ina að hún finni leiðir til þess að tryggja megi flutn­ing barna, sem eiga norska for­eldra og eru í Sýr­landi, til Nor­egs.

Vitað er um tugi Norðmanna sem hafa farið til Sýrlands til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki íslams, ISIS. Norska öryggislögreglan telur að u.þ.b. 20 fullorðnir Norðmenn séu í Sýrlandi, en ekki er vitað um ástæður dvalar þeirra allra. Um helmingurinn eru konur. Þá eru 35 börn af norskum uppruna í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert