Níðingur stunginn til bana

Breskur barnaníðingur sem var dæmdur árið 2016 fyrir að hafa nauðgað 22 börnum í Malasíu lést í bresku fangelsi í gær. Breskir fjölmiðlar segja að hann hafi verið stunginn til bana.

Richard Huckle, sem réðst á börnin í fátækrahverfum Kuala Lumpur, var að afplána 22 lífstíðardóma fyrir glæpi sína. 

Talsmaður Fangelsismálastofnunar staðfestir að Huckle hafi látist í gær í Full Sutton-fangelsinu í norðurhluta Englands. Hann segir að það væri óviðeigandi af honum að upplýsa frekar um málið þar sem lögreglurannsókn standi yfir. 

Fjölmiðlar greina frá því að hann hafi fundist látinn í klefa sínum eftir að hafa orðið fyrir hnífaárás. Við réttarhöldin 2016 játaði Huckle að hafa brotið gegn börnum í rúmlega 70 skipti. Börn sem hann hafði tælt þar sem hann vann sem sjálfboðaliði hjá kristilegum samtökum í Malasíu á árunum 2006-2014.

Richard Huckle.
Richard Huckle. AFP

Hann birti myndir af níðingsverkum sínum gegn stúlkum og drengjum á vefnum. Yngsta fórnarlambið er talið hafa verið um sex mánaða gamalt. Hann var handtekinn á Gatwick-flugvelli í desember 2014 þegar hann var að koma heim frá Malasíu til að eyða jólunum hjá foreldrum sínum. Lögregla lagði hald á tölvu hans en í henni fundust yfir 20 þúsund myndir af barnaníði og af þeim voru yfir eitt þúsund af honum sjálfum að níðast á börnum, þar á meðal að nauðga börnum.

Í tölvunni fannst skrá þar sem hann lýsti í þaula ofbeldi og misnotkun á 191 barni en ekki tókst að ákæra hann fyrir öll brotin þar sem ekki lágu fyrir myndir af öllum níðingsverkum hans. Sum myndskeiðin í tölvunni sýndu börn sem voru þvinguð til kynmaka hvert við annað. Börn neydd til þess að horfa á níðingsverkin og börn sem var migið á. Aðrir þolendur voru neyddir til að halda á skiltum með auglýsingum frá barnaníðsvefsvæðum. Þúsundir áskrifenda voru á þessum síðum. 

Huckle hafi jafnvel skrifað leiðbeiningar fyrir aðra níðinga um hvernig best væri að bera sig að. Hann hafði ætlað sér að selja leiðbeiningarnar og hagnast á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert