Ráðherra hættir við að mæta á leikinn

Tyrkir fagna sigurmarkinu gegn Albaníu á föstudagskvöld.
Tyrkir fagna sigurmarkinu gegn Albaníu á föstudagskvöld. Ljósmynd/Twitter

Ut­an­rík­is­ráðherra Frakk­lands, Jean-Yves Le Dri­an, hefur hætt við að vera viðstaddur leik Frakklands og Tyrklands í undankeppni EM í knattspyrnu en leikið verður í París í kvöld. Talsverð spenna er í aðdraganda leiksins vegna árása Tyrkja á Kúrda við landamæri Sýrlands.

Þjálfarar beggja liða hafa hvatt til þess að einblínt verði á fótboltann og ekki aðra hluti. Frakkland og Tyrkland eru með 18 stig í H-riðli undankeppni EM, sex stigum á undan Íslandi sem er í þriðja sæti riðilsins.

Fram kemur í frétt AFP að innrás Tyrkja hafi verið mótmælt víða um Evrópu þar á meðal í Frakklandi.

Fána Kúrda var flaggað í mótmælum í París um helgina.
Fána Kúrda var flaggað í mótmælum í París um helgina. AFP

Þar segir enn fremur að ráðherrann hafi ætlað að mæta á Stade de France í kvöld en hafi hætt við. Ástæða þess er ekki skýrð nánar.

Franska lögreglan verður með aukinn viðbúnað en búist er við því að það verði uppselt í kvöld. Af 78 þúsund áhorfendum verða um 3.800 stuðningsmenn Tyrkja.

Auk hættunnar á mótmælum innan vallar sem utan mun sérstaklega verða fylgst með hegðun leikmanna.

Áður hefur verið greint frá því að Knatt­spyrnu­sam­band Evr­ópu, UEFA, mun rannsaka fagnaðarlæti Tyrkja þegar þeir tryggðu sér 1:0-sigur gegn Albaníu á föstudagskvöld. Leikmenn fögnuðu sigurmarkinu með því að heilsa að hermannasið, bæði á vellinum og einnig í klefanum að leik loknum.

Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja, vildi einblína á fótboltann.
Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja, vildi einblína á fótboltann. AFP

Frakkar eiga harma að hefna frá því í fyrri leik liðanna í riðlinum í júní. Hluti tyrkneskra stuðningsmanna blístraði þegar franski þjóðsöngurinn var leikinn fyrir leik og vilja Frakkar hefna ófaranna. 

Íhaldssamir franskir stjórnmálamenn vilja að leiknum verði aflýst. 

„Það ætti ekki að nota fótboltann í áróðursstríði Erdogan,“ sagði Jordan Bardella, Evrópuþingmaður frönsku Þjóðfylkingarinnar. Hann bætti því við að það væri óhugsandi að sjá Tyrki heilsa að hermannasið á franskri grundu eða blístraði yfir þjóðsönginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert