Sameinaðar eftir 12 ára aðskilnað

Katheryn Strang hittir tíkina Hertogaynju 12 árum eftir að hún …
Katheryn Strang hittir tíkina Hertogaynju 12 árum eftir að hún strauk að heiman. Tíkin fannst í um 1.700 kílómetra fjarlægð frá heimilinu. Ljósmynd/Twitter

Sannkallaðir fagnaðarfundir áttu sér stað nýlega þegar tíkin Hertogaynja (e. Duchess) og eigandi hennar, Katheryn Strang, hittust eftir 12 ára aðskilnað. 

„Ég er svo hamingjusöm að fá hana til baka,“ sagði Strang tárvot við fréttamann CBS í Pittsburgh, þar sem tíkin fannst. „Ég grét mig svo oft í svefn án hennar.“ 

Hertogaynja fannst í litlum skúr í Pittsburgh, um 1.700 kílómetra fjarlægð frá heimili Strang í Flórída. Hún var flutt í dýraathvarf þar sem hún fékk aðhlynningu. „Hún var í frekar slæmu ástandi, hún skalf, var með ofvaxnar neglur og mjög skítug,“ segir Torin Fisher, starfsmaður dýraathvarfsins. 

Ekki liggur ljóst fyrir hvað á daga Hertogaynju hefur drifið síðustu 12 ár eða hvernig hún komst alla leið til Pennsylvaníu. 

Örflaga sem tíkin er með um hálsin leiddi hana aftur …
Örflaga sem tíkin er með um hálsin leiddi hana aftur til Strang, sem hafði haldið áfram að greiða fyrir að halda flögunni virkri. Ljósmynd/Twitter

Örflagan margborgaði sig

Tíkin, sem er af tegundinni fox terrier, laumaðist út eitt eftirmiðdegi í febrúar 2007, þá tveggja ára gömul. Strang hefur þrætt hvert dýraathvarfið á fætur öðru en án árangurs. Hún fékk svo símhringingu fyrir skömmu þar sem henni var tjáð að Hertogaynja hefði fundist. Örflaga sem tíkin er með um hálsin leiddi hana aftur til Strang, sem hafði haldið áfram að greiða fyrir að halda flögunni virkri. 

„Þetta voru 15 dollarar á ári, ég var ekki að fara að hætta að greiða fyrir það og gefa upp alla von,“ sagði Strang í samtali við CBS

Strang brunaði til Pittsburgh og sótti tíkina og ók með hana aftur til Flórída, sem tók um 18 klukkustundir. Strang segir bílferðina hafa verið með besta móti, þær hafi spjallað. „Ég hvíslaði að henni og spurði hvar hún hefði verið og hvort hún gæti ekki sagt mér einhverjar sögur,“ segir Strang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert