Afhenti ofbeldisfullum eiginmanni lögreglugögn

„Segðu henni bara að þú vitir hvar hún á heima,“ …
„Segðu henni bara að þú vitir hvar hún á heima,“ skrifaði lögreglumaðurinn í smáskilaboðum til félaga síns. AFP

Ástralskur lögreglumaður hefur verið dæmdur til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa afhent vini sínum gögn um eiginkonu hans sem hann hafði beitt heimilisofbeldi.

„Segðu henni bara að þú vitir hvar hún á heima,“ skrifaði lögreglumaðurinn í smáskilaboðum til félaga síns skömmu eftir að hann afhenti honum gögnin, og bætti við „Lol“ sem gefur til kynna að hann hafi hlegið við sendingu skilaboðanna.

Neil Punchard játaði sig sekan í níu ákæruliðum vegna innbrota í tölvukerfi lögreglunnar.

Fimm ár eru liðin síðan hann afhenti vini sínum gögnin og segist fórnarlambið hafa lifað við stöðugan ótta síðan hún komst að gagnaafhendingunni árið 2016. Það valdi henni sérstökum kvíða að lögreglumaður, sem hafi það að starfi að vernda hana, hafi þvert á móti stefnt henni í hættu.

Punchard neitar því að hann hafi vitað af því að samband þeirra hafi verið ofbeldisfullt.

Samkvæmt frétt BBC er heimilisofbeldi gríðarstórt vandamál í Ástralíu, þar sem ein af hverjum þremur konum hefur orðið fyrir ofbeldi og ein af hverjum fimm fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Þá er að meðaltali ein kona myrt af núverandi eða fyrrverandi maka sínum í viku hverri í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert