Biðu eftir heimsendi í níu ár

Loftmynd af bóndabænum þar sem fólkið hélt til neðanjarðar í ...
Loftmynd af bóndabænum þar sem fólkið hélt til neðanjarðar í níu ár. AFP

Hollenskur karlmaður faldi sig í kjallara ásamt sex ungmennum því hann bjóst við að heimsendir væri í nánd. Fólkið fannst þegar einn ungu mannanna laumaðist út, fór á nærliggjandi krá þar sem hann bað um hjálp og sagði að þetta væri í fyrsta skiptið í níu ár sem hann færi út undir bert loft.

Lögregla fór á staðinn og fann manninn ásamt sex ungmennum á aldrinum 18-25 ára í kjallara á bóndabæ skammt frá þorpinu Ruinerwold í norðurhluta Hollands.

Í upphafi var talið að um börn mannsins væri að ræða en komið hefur í ljós að svo er ekki. Þá er hann ekki eigandi bóndabæjarins. „Ég hef aldrei vitað annað eins,“ sagði Roger de Groot, bæjarstjóri í Ruinerwold á blaðamannafundi vegna málsins.

Talsmaður hollensku lögreglunnar sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að hluti þirra sem fundust á bóndabænum væru ekki skráð í þjóðskrá. Í umfjöllun hollenskra fjölmiðla um málið kemur  fram að einhver þeirra hafi ekki haft hugmynd um að til væri annað fólk í heiminum.

Inngangurinn í kjallarann var falinn á bak við skáp í bóndabænum. Fólkið er sagt hafa verið algerlega sjálfbært og ræktað eigin mat. Nágrannarnir vissu ekki betur en að einungis einn maður byggi í húsinu.

Frétt BBC

mbl.is