Lögreglumaður skaut konu á heimili hennar

Atburðarásin náðist á myndavél lögreglunnar þar sem lögreglumaðurinn sést skjóta …
Atburðarásin náðist á myndavél lögreglunnar þar sem lögreglumaðurinn sést skjóta Jefferson nánast um leið og hann sér hana í glugganum. AFP

Bandarískur lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir að skjóta 28 ára gamla svarta konu á heimili hennar í borginni Fort Worth í Texas á laugardag. Lögreglan greinir frá því að maðurinn, Aaron Dean, sé í haldi í Tarran County-fangelsinu. Hann sagði upp störfum í gær. 

Dean skaut Atatiana Jefferson í gegnum svefnherbergisglugga á heimili hennar. Nágranni Jefferson óskaði eftir aðstoð lögreglu þar sem hann tók eftir því að dyr væru opnar að húsi hennar. Tveir lögreglumenn fóru á vettvang, þar á meðal Dean. 

Lögreglumennirnir voru með myndavél framan á sér og náðist atburðarásin á upptöku. Þegar manneskja sést í svefnherbergisglugganum kallar annar lögreglumaðurinn: „Upp með hendur, sýndu mér hendurnar.“ Örskömmu síðar hleypti Dean af. 

Ed Kraus, lögreglustjóri í Fort Worth, segir að það sem fram kemur á upptökunni geti ekki talist eðlileg framkoma lögreglunnar, sérstaklega þar sem lögreglumennirnir gera aldrei grein fyrir sér. Ef Dean hefði ekki sjálfur sagt upp störfum hefði Kraus umsvifalaust rekið hann. 

Nágranninn sem hringdi í lögregluna segir í samtali við staðarmiðla að hann hafi verið að reyna að vera góður nágranni. „Ef ég hefði ekki hringt væri hún enn á lífi,“ segir James Smith, sem segist óttast að eiga í samskiptum við lögreglu eftir þetta. 

Ásakanir um hrottalega framkomu lögreglu í samfélögum svartra hafa verið í deiglunni í Bandaríkjunum um langa hríð. 

Systir Jefferson, Ashley Carr, hefur kallað eftir því að alríkisrannsókn fari fram á morðinu. Lee Merrit, lögmaður fjölskyldunnar, segir að rannsóknin ætti að vera í höndum annarra en lögreglunnar í Fort Worth, „sem er á góðri leið að verða lífshættulegasta lögregludeild landsins“.

Íbúar í borginni efndu til bænastundar fyrir Jefferson á sunnudag sem breyttist fljótlega í mótmæli gegn lögregluofbeldi.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert