Samningur um Brexit gæti náðst í vikunni

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, útilokar ekki að samningur um útgöngu …
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, útilokar ekki að samningur um útgöngu Breta úr sambandinu geti legið fyrir í lok vikunnar. AFP

Samn­ing­ur um út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu gæti mögulega legið fyrir í vikunni, þrátt fyrir að erfitt geti reynst að komast að samkomulagi. Þetta segir Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB. 

Barnier mun upplýsa ráðherra aðildarríkjanna, sem eru samankomnir í Lúxemborg, um stöðu mála síðar í dag. Hann segir að timi sé kominn til að festa góðar hugmyndir í lög. Fram kom í stefnuræðu sem Elísabet Englandsdrottning flutti í breska þinginu í gær að það væri for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar að ganga úr ESB fyr­ir 31. októ­ber.

Aðild Norður-Írlands að tolla­banda­lagi sam­bands­ins hefur verið meðal helstu deilumála útgöngusamningsins og hefur fréttamaður BBC heimildir fyrir því að bresk stjórnvöld hafi boðað nýjar hugmyndir í þeim efnum í 12 klukkustunda samningaviðræðum í gær. 

„Það er enn mögulegt að komast að samkomulagi en augljóslega þarf samkomulagið að ganga upp fyrir alla,“ sagði Barnier þegar hann ræddi við fjölmiðla í Lúxemborg í morgun. 

Gert er ráð fyr­ir því að Bret­land yf­ir­gefi Evr­ópu­sam­bandið form­lega 31. októ­ber en lög voru samþykkt á breska þing­inu í byrj­un sept­em­ber að frum­kvæði stjórn­ar­and­stöðunn­ar í óþökk rík­is­stjórn­ar John­sons þess efn­is að hon­um beri að óska eft­ir því við sam­bandið að út­göng­unni verði frestað að minnsta kosti um þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert