Vannæring og ofþyngd ógnar lífi og heilsu barna

Í ár er sérstaklega litið til fæðu og næringar barna …
Í ár er sérstaklega litið til fæðu og næringar barna í ár­legri skýrslu Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna (UNICEF) um stöðu barna í heim­in­um. Í skýrslunni segir að það sé mikið áhyggjuefni hversu hátt hlutfall barna glímir nú við afleiðingar lélegs mataræðis og fæðukerfis sem er að bregðast þeim. Ljósmynd/UNICEF

Slæmt mataræði ógnar lífi og heilsu barna um heim allan. Eitt af hverjum þremur börnum undir fimm ára er vannært og tvö af hverjum þremur börnum búa við lélegt mataræði. Á sama tíma eykst hlutfall of þungra barna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ár­legri skýrslu Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna (UNICEF) um stöðu barna í heim­in­um, State of the World's Children. 

Í ár er sérstaklega litið til fæðu og næringar barna og í skýrslunni segir að það sé mikið áhyggjuefni hversu hátt hlutfall barna glímir nú við afleiðingar lélegs mataræðis og fæðukerfis sem er að bregðast þeim. 

„Við, þau fullorðnu, erum að hunsa rétt barna til lífs og þroska of víða og um leið gröfum við undan stoðum styrkra samfélaga framtíðar. Niðurstöður skýrslunnar sýna að allir þurfa að leggjast á eitt við að snúa þessari þróun við, hvort sem um ræðir vannæringu, ofnæringu eða vítamínskort. Velferð komandi kynslóða er í húfi,“ segir Bergsteinn  Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Ljósmynd/UNICEF

Börn fá ekki rétta fæðu

Skýrslan, sem er umfangsmesta greining á stöðu næringar barna á 21. öld, beinir kastljósinu að því hvernig hugtakið vannæring er að breytast. Vannæring í dag snýst ekki bara um að börn fái ekki að borða heldur fremur um að börn eru ekki að fá rétta fæðu. 

Að minnsta kosti eitt af hverjum þremur börnum undir fimm ára aldri, eða 200 milljónir barna, eru ýmist vannærð eða of þung. Nærri tvö af hverjum þremur börnum á aldrinum hálfs árs til tveggja ára, eru ekki að neyta þess matar sem þarf til að standa undir þroska þeirra og vexti. Þau eru í hættu á að heilinn þroskist ekki sem skyldi, sem gerir þeim erfiðara fyrir að læra, þau lifa við verra ónæmiskerfi, tíðari sýkingar og í mörgum tilfellum getur það leitt til dauða. 

Snýst um að gefa börnum rétt að borða

„Þrátt fyrir alla tækni-, menningar- og samfélagsframþróun síðustu áratuga höfum við misst sjónar á grundvallaratriðum í mataræði barna og áhrifum þess á lífsgæði þeirra,“ er haft eftir Henrietta Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, í tilkynningu um skýrsluna. 

„Milljónir barna draga fram lífið á óheilbrigðu mataræði einfaldlega af því að þau hafa ekki aðra valkosti. Við þurfum að breyta því hvernig við skiljum og bregðumst við vannæringu. Þetta snýst ekki bara um að gefa börnum nóg að borða, heldur að gefa þeim rétt að borða. Það er sameiginleg áskorun okkar allra í dag.“ 

Í skýrslunni er lagt ítarlegt mat á vannæringu 21. aldar barna í öllum sínum birtingarmyndum, þ.e. í formi næringarskorts, falins hungurs sem samanstendur af skorti á nauðsynlegum vítamínum og næringarefnum og svo ofþyngd meðal barna undir fimm ára aldri. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru: 

  • 149 milljónir barna þjást af vaxtarröskun eða eru of lágvaxin miðað við aldur. 
  • 50 milljónir barna þjást af rýrnun eða eru of grannvaxin miðað við hæð. 
  • 340 milljónir barna, eða annað hvert barn, þjást af skorti nauðsynlegra vítamína og næringarefna á borð við A-vítamín og járn.  
  • 40 milljónir barna eru of þung eða í offitu. 
UNICEF bendir á í skýrslunni að vannæring af öllu tagi …
UNICEF bendir á í skýrslunni að vannæring af öllu tagi leggist þyngst á fátækari samfélög. Ljósmynd/UNICEF

Offita barna og unglinga sífellt að aukast 

Eitt af stærstu vandamálum nútímans er ofþyngd og offita barna og unglinga sem er sífellt að aukast. Frá árinu 2000 til ársins 2016 fór hlutfall of þungra barna á aldrinum 5 til 19 ára úr 1 af hverjum 10 í 1 af hverjum 5. Tíu sinnum fleiri stelpur og 12 sinnum fleiri strákar í þessum aldurshópi þjást af offitu í dag en árið 1975. 

UNICEF bendir á í skýrslunni að vannæring af öllu tagi leggist þyngst á fátækari samfélög. Aðeins eitt af hverjum fimm börnum á aldrinum sex mánaða til tveggja ára í fátækustu samfélögunum borðar nægilega fjölbreytta fæðu til að vaxa á heilbrigðan og eðlilegan máta. Meira að segja í ríkari samfélögum á borð við Bretland þá er ofþyngd helmingi meiri hjá íbúum á fátækari svæðum en þeim ríkustu. 

Í dag er fólki tíðrætt um áhrif loftslagsbreytinga en hamfarir tengdar hlýnun jarðar af mannavöldum auka verulega á matarneyð. Þurrkar eiga sök á 80 prósentum tapaðrar uppskeru í heimunum. Slíkar hamfarir hafa þær afleiðingar í för með sér að sá matur sem stendur fjölskyldum og börnum til boða breytist verulega, að ógleymdum gæðum og verðlagi. 

UNICEF skorar á stjórnvöld um allan heim  

Til að bregðast við þessum vaxandi vanda á heimsvísu skorar UNICEF á stjórnvöld um allan heim, einkageirann, foreldra, fjölskyldur og fyrirtæki að hjálpa börnum að vaxa heilbrigð úr grasi með því meðal annars að: 

  • Valdefla fjölskyldur, börn og ungt fólk til að krefjast næringarríkar fæðu, auka næringarfræðslu og nota þaulreynda löggjöf á borð við sykurskatta til að draga úr framboði á óhollri fæðu.
  • Hvetja matarbirgja til að styðja við börn með hvötum til að útvega hollan, einfaldan og ekki of dýran mat. 
  • Skapa heilbrigt fæðuumhverfi fyrir börn og ungmenni með leiðum sem vitað er að skila árangri eins og með bættum innihaldslýsingum og merkingum og sterkara aðhaldi við markaðssetningu á óhollum mat.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert