Barnið í leirpottinum berst fyrir lífinu

Ástand litlu stúlkunnar er alvarlegt.
Ástand litlu stúlkunnar er alvarlegt. AFP

Nýfætt stúlkubarn, sem fannst í leirpotti sem grafinn hafði verið í jörð í Uttar Pradesh-héraði í norðurhluta Indlands í síðustu viku, berst nú fyrir lífi sínu. Hún er með alvarlega blóðeitrun og hættulega lágt hlutfall blóðflaga. Það kemur í ljós á næstu fimm til sjö dögum hvort hún muni lifa áfram.

Þetta segir læknir stúlkunnar, barnalæknirinn Ravi Khanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC. Hann áætlar að stúlkan hafi verið grafin í jörðu í þrjá til fjóra daga. Hann segir að barnið hafi lifað á svokallaðri brúnni fitu, sem er varmamyndandi og afar orkuríkt fitulag sem börn fæðast með.

Stúlkan fannst á fimmtudaginn þegar íbúi á svæðinu hugðist jarða dóttur sína sem hafði fæðst andvana. Þegar hann tók gröf barns síns rak hann skófluna í leirpott sem var á um metra dýpi, tók hann upp og í honum reyndist stúlkan vera. Lögreglu grunar að hún hafi verið grafin lifandi með vitund og vitneskju foreldranna. 

Litla stúlkan var afar veikburða þegar hún fannst, hún er fyrirburi sem fæddist á 30. viku meðgöngu og vó 1,1 kíló. Hún er á ungbarnagjörgæslu og fær næringu í æð.

Indverski þingmaðurinn Rajesh Kumar Mishra í Uttar Pradesh hugar að …
Indverski þingmaðurinn Rajesh Kumar Mishra í Uttar Pradesh hugar að stúlkunni. AFP

Hefur verið nefnd Sita

Þingmaðurinn Rajesh Kumar Mishra sem býr á svæðinu segist ætla að ættleiða stúlkuna og að hún muni verða alin upp af honum og eiginkonu hans. „Það er kraftaverk að hún lifði. Ég er sannfærður um að guð bjargaði lífi hennar og sendi hana til mín. Núna er það skylda okkar að gera allt sem við getum fyrir hana, sagði Mishra í samtali við BBC og bætti við að hann myndi ala hana upp sem dóttur sína og að hann hefði þegar nefnt hana Sita, sem er eftir hindúagyðju. 

Enginn hefur gefið sig fram og lögregla leitar nú foreldranna.

Stjórn­völd á Indlandi hafa í gegn­um ströng lög reynt að koma á eðli­legu jafn­vægi á milli fæðinga stúlkna og drengja í land­inu en 943 kon­ur eru á hverja 1.000 karla sam­kvæmt nýj­ustu op­in­beru töl­um

Fóst­ur­eyðing­ar á óvel­komn­um stúlku­börn­um hafa verið fram­kvæmd­ar á ólög­leg­um lækn­inga­stof­um en einnig er al­gengt að stúlku­börn séu hrein­lega bor­in út. 

mbl.is