Erdogan þekkist heimboð Pútíns

Valdimír Pútín Rússlandsforseti hefur boðið Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta „í …
Valdimír Pútín Rússlandsforseti hefur boðið Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta „í vinnuheimsókn á næstu dögum“. Erdogan á að hafa þekkst boðið, að því er segir í tilkynningu frá forsetaskrifstofu Rússlands. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræddi átökin á landamærum Sýrlands og Tyrklands í símtali við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í gær, að sögn stjórnvalda í Kreml, sem segja jafnframt að Erdogan hafi átt frumkvæði að símtalinu. 

Pútín hefur boðið Erdogan „í vinnuheimsókn á næstu dögum“. Erdogan á að hafa þekkst boðið, að því er segir í tilkynningu frá forsetaskrifstofu Rússlands. 

Í símtalinu lögðu leiðtogarnir áherslu á að mikilvægi þess að koma í veg fyrir bein átök herja Tyrk­lands og Sýr­lands í norðaust­ur­hluta þess síðar­nefnda og hef­ur rúss­neski her­inn því komið sér fyr­ir á milli þeirra. Þá lofaði Erdogan því að Tyrkir myndu aðstoða sýrlenska stjórnarherinn í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. 

Rúss­ar eru aðal­banda­menn stjórn­ar­hers al-Assad Sýr­lands­for­seta, sem hef­ur kom­ist að sam­komu­lagi við Kúrda, sem Tyrk­ir herja nú á í norðaust­ur­hluta Sýr­lands, og veita þeim nú liðsstyrk á helstu víg­stöðvum.

Erdogan sagði í gærkvöld að Tyrkir geti aldrei lýst yfir vopnahléi í norðanverðu Sýrlandi fyrr en þeir geti fullvissað sig um að þeir hafi útrýmt hryðjuverkasveitum við landamærin, en Tyrkir líta á vopnaðar sveitir Kúrda sem hryðjuverkasamtök. 

Þá segir forsetinn viðskiptaþvinganir Bandaríkjastjórnar ekki hafa nein áhrif á hernaðaraðgerðir Tyrkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert