Gætu skipt á Berg

Frode Berg við réttarhöldin í Moskvu í vor. Hann gæti …
Frode Berg við réttarhöldin í Moskvu í vor. Hann gæti verið á leið til Litháen í fangaskiptum og þaðan heim til Noregs eftir að hafa rétt hafið afplánun 14 ára dóms í Moskvu fyrir njósnir. AFP

Fréttastofan Baltic News Service (BNS) í Litháen greinir frá því að í síðustu viku hafi samningar um fangaskipti náðst milli yfirvalda í Rússlandi og Litháen. Segir fréttastofan að tveimur rússneskum föngum verði sleppt úr fangelsi í Litháen gegn því að Rússar afhendi Litháum norskan fanga sem reyndar getur aðeins verið landamæraeftirlitsmaðurinn fyrrverandi, Frode Berg, eini norski ríkisborgarinn sem Rússar hafa í haldi svo vitað sé.

Berg hlaut 14 ára fangelsisdóm í apríl fyrir njósnir eftir að hann var handtekinn í Moskvu í desember 2017, grunaður um að miðla norskum yfirvöldum gögnum um rússneska kjarnorkukafbáta. Berg, sem nú er 63 ára gamall, neitaði sök frá upphafi og sagðist aðeins hafa verið að flytja reiðufé sem hann hefði sent með pósti í Rússlandi til fólks eftir leiðbeiningum frá Noregi en játaði að hafa átt samskipti við norsku leyniþjónustuna.

Norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að yfirvöld í Rússlandi og Litháen hafi að öllum líkindum komist að samkomulagi um fangaskiptin og auk Rússanna tveggja sem Litháar hyggist sleppa skuldbindi rússnesk yfirvöld sig til að framselja tvo Litháa sem halda til í Rússlandi. Þá greinir breska ríkisútvarpið BBC frá því að annar rússnesku fanganna, sem til stendur að sleppa úr haldi, sé Nikolaj Filiptsjenko, njósnari sem hlaut tíu ára dóm í Litháen fyrir að reyna að fá opinbera starfsmenn þar til að koma hlerunarbúnaði fyrir á heimili og skrifstofu forseta Litháen.

Nafnlaus heimildamaður í leyniþjónustunni

Norsku miðlarnir vísa allir í frétt BNS sem aftur vísar í nafnlausan heimildamann úr röðum leyniþjónustunnar í Litháen. Fyrir um mánuði greindi rússneska dagblaðið Kommersant frá samningaviðræðum sem snerust um aðkomu þriðja lands að því að fá Frode Berg leystan úr haldi Rússa en hann hefur setið í Lefortovo-fangelsinu í Moskvu frá handtökunni 2017.

Brynjulf Risnes, lögmaður Frode Berg í Noregi, segir fréttirnar vissulega góðar séu þær ekki úr lausu lofti gripnar en segir í viðtali í útvarpsfréttum norska ríkisútvarpsins NRK í kvöld að hann viti ekkert um hvað hæft sé í frétt BNS. Fulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, Ane Haavardsdatter Lunde, segir NRK að ráðuneytið hafi tjáð Rússum að vilji norskra yfirvalda sé að fá Berg heim til Noregs en segist ekki geta tjáð sig frekar um málið og frá rússneska utanríkisráðuneytinu fengust engin svör um hugsanleg skipti á norska landamæraeftirlitsmanninum og rússneskum föngum í Litháen.

NRK

Aftenposten

TV2

Frétt BNS í Litháen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert