Handtaka í tengslum við „heimsendafjölskyldu“

Loftmynd af bóndabænum skammt frá þorpinu Ru­inerwold í norður­hluta Hol­lands.
Loftmynd af bóndabænum skammt frá þorpinu Ru­inerwold í norður­hluta Hol­lands. AFP

Hollenska lögreglan handtók austurrískan karlmann í tengslum við mál fjölskyldu sem fannst í kjallara á einangruðum sveitabæ  í norðanverðu Hollandi á mánudag. Um var að ræða karlmann og fimm börn hans á aldrinum 18 til 25 ára en þau voru sögð bíða heimsendis.

Lögreglan greindi frá því að hún hefði fundið karlmann og fimm börn hans. Enn fremur var greint frá því að 58 ára karlmaður hefði verið handtekinn vegna þess að hann neitaði að vera samvinnuþýður. Upphaflega sagði lögreglan að um væri að ræða sex börn.

Austurríska utanríkisráðuneytið staðfesti að þarlendur karlmaður frá Vín væri í haldi í tengslum við málið. Maðurinn vildi ekki eiga nein samskipti við austurríska embættismenn.

Talsmaður ráðuneytisins sagði í samtali við AFP að ekki væri vitað nákvæmlega hvers vegna hann hefði verið handsamaður en tók það fram að fólkið sem fannst í kjallaranum væri hollenskt.

Austurrískir og hollenskir miðlar segja að maðurinn hafi verið kallaður „Austurríkismaðurinn Jósef“. Hann hafi verið sá sem hélt hópnum í kjallaranum, leigði húsið og gróðursetti grænmetið í garðinum en áður var greint frá því að fólkið hefði verið algjörlega sjálfbært.

Fjölskyldan var sögð hafa beðið eftir heimsendi undanfarin níu ár en bæjarstjóri Ruinerworld sagðist aldrei hafa orðið vitni að neinu þessu líku.

„Var að byrja í nýrri vinnu“

Elsta barnið, sem var kallað Jan var með Facebook-aðgang og setti inn færslu í byrjun sumars en það var í fyrsta skipti í níu ár sem hann lét vita af sér.

„Var að byrja í nýrri vinnu,“ stóð í færslunni samkvæmt hollenskum miðlum. 

Lögregla gerði húsleit hjá fyrirtækinu sem Jan starfaði hjá á mánudag en eigandi þess var hinn 58 ára gamli Jósef.

Jan skrifaði á samfélagsmiðilinn LinkedIn að foreldrar hans hefðu rekið fyrirtæki þar til móðir hans lést árið 2004. 

Lögregla hóf rannsókn þegar Jan gekk inn á bar í bænum á sunnudagskvöld. Þangað kom hann lufsulegur, óþrifinn og í gömlum fötum og sagðist ekki hafa farið út í níu ár.

Lögregla kom auga á stiga á bóndabænum við rannsókn þar sem faðirinn og börnin voru falin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert