Eiturlyfin reyndust vera þurrmjólk

Gregg var ákærður fyrir vöslu eiturlyfja sem reyndust síðan vera …
Gregg var ákærður fyrir vöslu eiturlyfja sem reyndust síðan vera þurrmjólk. AFP

Bandarískur karlmaður sem játaði sig sekan um vörslu kókaíns í Oklahoma, dró játningu sína tilbaka eftir að nánari rannsókn á efninu sem fannst á manninum, leiddi í ljós að efnið hafi í raun verið þurrmjólk. 

Cody Gregg, 26 ára, fékk fimmtán ára fangelsisdóm í síðustu viku, en hann játaði að hafa haft í vörslum sínum kókaín sem hann hugðist selja. Gregg var handtekin í ágúst og neitaði fyrst um sinn staðfastlega sök. 

Gregg hafði verið að hjóla um iðnaðarhverfi í Oklahoma borg þegar lögregla tók eftir því að en engin afturljós væru á hjóli Gregg, sem er heimilislaus. Lögregla reyndi að stöðva Gregg, sem tók þá að hjóla hraðar þangað til hann stökk af hjólinu og hljóp í burtu. Þegar lögregla náði að stöðva hann uppgötvaðist glær plastpoki með hvítu dufti í sem geymdur var í kaffimáli í bakpoka Gregg. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir glæpsamlegt athæfi. 

Eftir tveggja mánaða fangelsisvist játaði Gregg sig sekan, eftir því sem fram kemur á Washington Post. Tveimur dögum eftir að dómurinn yfir Gregg var kveðinn upp, dró hann þó játningu sína tilbaka. 

Frekari rannsókn á „kókaíninu“ hafði leitt í ljós að efnið væri þurrmjólk og var mál Gregg látið niður falla á fimmtudaginn í síðustu viku. Eftir því sem fram kemur á CNN var Gregg látinn laus úr haldi á föstudaginn í síðustu viku. 

mbl.is