Eiturlyfin reyndust vera þurrmjólk

Gregg var ákærður fyrir vöslu eiturlyfja sem reyndust síðan vera ...
Gregg var ákærður fyrir vöslu eiturlyfja sem reyndust síðan vera þurrmjólk. AFP

Bandarískur karlmaður sem játaði sig sekan um vörslu kókaíns í Oklahoma, dró játningu sína tilbaka eftir að nánari rannsókn á efninu sem fannst á manninum, leiddi í ljós að efnið hafi í raun verið þurrmjólk. 

Cody Gregg, 26 ára, fékk fimmtán ára fangelsisdóm í síðustu viku, en hann játaði að hafa haft í vörslum sínum kókaín sem hann hugðist selja. Gregg var handtekin í ágúst og neitaði fyrst um sinn staðfastlega sök. 

Gregg hafði verið að hjóla um iðnaðarhverfi í Oklahoma borg þegar lögregla tók eftir því að en engin afturljós væru á hjóli Gregg, sem er heimilislaus. Lögregla reyndi að stöðva Gregg, sem tók þá að hjóla hraðar þangað til hann stökk af hjólinu og hljóp í burtu. Þegar lögregla náði að stöðva hann uppgötvaðist glær plastpoki með hvítu dufti í sem geymdur var í kaffimáli í bakpoka Gregg. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir glæpsamlegt athæfi. 

Eftir tveggja mánaða fangelsisvist játaði Gregg sig sekan, eftir því sem fram kemur á Washington Post. Tveimur dögum eftir að dómurinn yfir Gregg var kveðinn upp, dró hann þó játningu sína tilbaka. 

Frekari rannsókn á „kókaíninu“ hafði leitt í ljós að efnið væri þurrmjólk og var mál Gregg látið niður falla á fimmtudaginn í síðustu viku. Eftir því sem fram kemur á CNN var Gregg látinn laus úr haldi á föstudaginn í síðustu viku. 

mbl.is