„Meðan ekki fer sæði á barnið“

Svona leit frétt um innbrotafaraldur í BMW-bifreiðar í Ósló út …
Svona leit frétt um innbrotafaraldur í BMW-bifreiðar í Ósló út eftir að annaðhvort var brotist inn í vefumsjónarkerfi Dagbladet eða starfsmaður með aðgang gekk berserksgang. Síðan var lokuð í þrjá tíma í kvöld og sætir málið nú rannsókn. Ritari Ernu Solberg forsætisráðherra segir ráðuneytið líta málið grafalvarlegum augum. Ljósmynd/Ábendinganetfang nokkurra norskra fjölmiðla

„Erna Solberg segir að það sé í góðu lagi“ sagði í fyrirsögn á vefsíðu norska Dagbladet á frétt sem upprunalega fjallaði um innbrotafaraldur í BMW-bifreiðar í Ósló. „Barnaníð er í lagi á meðan ekki fer sæði á barnið“ hljóðaði undirfyrirsögnin og var „blaðamaðurinn“ sem skráður var fyrir fréttinni „Øystein Pedofil“ eða Eysteinn barnaníðingur.

Aller Media, útgáfufélag Dagbladet, brá skjótt við og lokaði síðunni í þrjár klukkustundir á meðan upprunalegt efni var endurheimt og var síðan opnuð á ný á áttunda tímanum í kvöld að íslenskum tíma. Fleiri síðum í eigu félagsins var lokað vegna staðleysu sem þar birtist eins og skrattinn úr sauðarleggnum og má þar nefna Dinside.no og Seher.no.

Erna Solberg upplýst um málið

Rune Alstadsæter, ritari Ernu Solberg forsætisráðherra, hefur verið í sambandi við Dagbladet vegna málsins og segir norskum fjölmiðlum að Solberg hafi verið upplýst um málið en neitar að tjá sig um viðbrögð ráðherrans. „Ég var að ræða við Alexöndru Beverfjord ritstjóra og mér er kunnugt um að þau vinna nú í því að fjarlægja þetta efni,“ segir Alstadsæter í samtali við vefmiðilinn Medier24.no í kvöld. „Það er grafalvarlegt að svo grófum og röngum sökum sé beint að forsætisráðherranum á einni af mest lesnu vefsíðum Noregs,“ segir hann enn fremur.

Geir Wiksen, kerfisstjóri Dagbladet, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að of snemmt sé að segja til um hvort tölvuþrjótum hafi tekist að brjótast inn í vefumsjónarkerfið, en nefnir ekki fleiri mögulegar skýringar sem þó hlytu að vera þær að starfsmaður með lögmætan aðgang að ritli vefjarins hafi einfaldlega gengið af göflunum.

Aller Media hefur tilkynnt lögreglu og Þjóðaröryggisstofnun Noregs (Nasjonal sikkerhetsmyndighet (NSM)) um málið auk þess sem PublishLab, fyrirtækið á bak við vefumsjónarkerfið Labrador sem Dagbladet notar, rannsakar nú hvað gerðist en Jon Reidar Hammerfjeld, talsmaður þess, vill ekkert segja við norska miðla annað en að unnið sé í málinu þar á bæ.

Aftenposten

Dagsavisen 

VG

mbl.is