Myndin sem skiptir Washington í tvær fylkingar

Fólk er ósammála um það hvort Nancy Pelosi eða Donald …
Fólk er ósammála um það hvort Nancy Pelosi eða Donald Trump hafi sýnt af sér ósæmandi hegðun á fundinum. Ljósmynd/Aðsend

Mynd sem sýnir Nancy Pelosi, leiðtoga demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, standa yfir og lesa Donald Trump Bandaríkjaforseta pistilinn vegna ákvörðunar hans um að draga herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi hefur valdið miklum deilum í bæði raun- og netheimum og virðist vera orðin eins konar táknmynd stríðandi fylkinga í Washington.

Fulltrúar demókrata í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings funduðu í gær með fulltrúum repúblika, yfirmönnum í Bandaríkjaher og Trump um ákvörðun þess síðastnefnda að draga herlið Bandaríkjanna frá Sýrlandi. Ákvörðunin hefur verið gríðarlega umdeild og margir vilja meina að með henni hafi forsetinn gefið Tyrkjum skotleyfi á Kúrda.

Fundurinn var mjög ákafamikill og endaði með því að Pelosi og Charles Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, gengu út af fundinum. BBC greinir frá.

Pelosi og Trump hafa bæði deilt myndinni á samfélagsmiðlum og saka hvort annað um „bræðiskast“ á fundinum. Leiðtogar repúblíka saka Pelosi um að hafa sýnt „ósæmandi hegðun“ en hún vísar þeim ummælum til föðurhúsanna.

Færslu Trump þar sem hann deilir myndinni með yfirskriftinni „Bræðiskast taugaveikluðu Nancy“ hefur verið deilt tæplega 30 þúsund sinnum og rúmlega 65 þúsund athugasemdir hafa skrifaðar við hana.

Hvað gerðist á fundinum?

Samkvæmt heimildum AP hófst fundurinn á því að Trump grobbaði sig af „kvikindislegu“ bréfi sem hann sendi forseta Tyrklands, Recep Tayyip Er­dog­an, þar sem hann varaði hann við því að vera „harðjaxl“ og „bjáni“.

Næst hafi Pelosi minnt forsetann á fordæmingu Bandaríkjaþings á ákvörðun hans að draga herliðið frá Sýrlandi sem samþykkt var með miklum meirihluta fyrr í gær. Þá hafi Schumer byrjað að lesa yfirlýsingu fyrrverandi varnamálaráðherra Bandaríkjanna, James Mattis, um mikilvægi þess að halda herliði Bandaríkjanna í Sýrlandi til að koma í veg fyrir uppgang ISIS.

Forsetinn hafi þó gripið fram í fyrir honum og þaggað niður í honum með því að segja að Mattis væri „ofmetnasti hershöfðingi sögunnar.“ Þá hafi Trump sagt við Pelosi: „Ég hata ISIS meira en þú gerir.“

Schumer hafi síðan spurt forsetann hver hans áætlun væri varðandi árásir Tyrkja á Sýrlendinga og hann hafi svarað því að hún væri sú að „vernda öryggi Bandaríkjamanna.“ Pelosi er sögð ítrekað hafa bent forsetanum á að það væri markmið hans en ekki áætlun.

Á endanum hafi einn af leiðtogum demókrata í fulltrúadeildinni, Steny Hoyer, þurft að grípa inn í rifrildið þegar forsetinn var byrjaður að kalla Pelosi „þriðja flokks stjórnmálamann.“ Stuttu síðar hafi fulltrúar demókrata yfirgefið fundinn.

Eins og áður kemur fram hafa báðar fylkingar lýst yfir „sigri“ á fundinum og sakað hvort annað um dónaskap. Demó­krat­ar hafa sagt mynd­ina af Pe­losi vera „goðsagna­kennda“ og sýna Pe­losi á henn­ar „besta augna­bliki“ á meðan repúblikar segja hana hafa tekið „bræðiskast“ og sýnt ósæmandi hegðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina