Tyrkir náðu mikilvægum landamærabæ

Frá Ras al-Ain. Sveitir Tyrklandshers hafa nú náð bænum á …
Frá Ras al-Ain. Sveitir Tyrklandshers hafa nú náð bænum á sitt vald. AFP

Tyrkneskar hersveitir og sýrlenskir bandamenn þeirra hafa náð bænum Ras al-Ain á sitt vald. Bærinn er mikilvægur frá hernaðarlegu sjónarmiði, hann er skammt frá landamærum Tyrklands og Sýrlands og þaðan hafa sveitir Kúrda haldið úti öflugri mótspyrnu.

„Það hafa verið gerðar loftárásir á Ras al-Ain undanfarna þrjá daga,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Rami Abdel Rahman sem er talsmaður bresku mannréttindasamtakanna Syrian Observatory for Human Rights. 

Tyrkir eru talsvert betur vopnum búnir en andstæðingurinn, Sýr­lenski lýðræðis­her­inn (SDF), sem er und­ir stjórn Kúrda. SDF hugðist verja Ras al-Ain, m.a. með því að nota göng og varnargarða á svæðinu, auk þess að nota handsprengjur. Fréttamaður AFP á svæðinu segir að heyra megi linnulausa skothvelli og sprengingar.

Frá Ras al-Ain.
Frá Ras al-Ain. AFP

Markmið Tyrkja er að ná yfirráðum á svæði sem nær um 30 kílómetra inn í Sýrland. Tilgangurinn er annars vegar að halda sveitum Kúrda frá landamærunum að Tyrklandi og búa þannig til það sem hefur verið kallað „öryggissvæði“ og hins vegar að þangað verði sendur hluti þeirra 3,6 milljóna flóttamanna frá Sýrlandi sem hafast nú við í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert