Boða til allsherjarverkfalls í Katalóníu

Dagleg mótmæli hafa verið í Barcelona frá því á mánudag …
Dagleg mótmæli hafa verið í Barcelona frá því á mánudag þegar níu leiðtogar sjálf­stæðissinna í Katalón­íu voru dæmdir til ára­langr­ar fang­els­is­vist­ar. AFP

Aðskilnaðarsinnar hafa boðað til allsherjarverkfalls í Katalóníu í dag. Tugþúsund­ir hafa safnast saman í miðborg Barcelona öll kvöld vikunnar til að mótmæla fang­els­is­dóm­um leiðtoga aðskilnaðarsinna sem vilja sjálf­stæði Katalón­íu­héraðs.

Hæstirétt­ur Spán­ar dæmdi á mánu­dag níu leiðtoga sjálf­stæðissinna í Katalón­íu til ára­langr­ar fang­els­is­vist­ar. Þyngsti dóm­ur­inn hljóðar upp á 13 ár en sá sem styst þarf að sitja inni verður þar þó í níu ár.

Í mótmælunum í gærkvöld stöðvuðu mótmælendur umferð á landamærum Spánar og Frakklands. Mótmælendur kveiktu einnig í bílum og köstuðu bensínsprengjum og flugeldum að óeirðalögreglu. Þá safnaðist fjöldi háskólanema saman og mótmælti sömuleiðis og kyrjuðu „frelsið pólitísku fangana“. 

Búist er við að hundruð þúsunda taki þátt í allsherjarverkfallinu og fjöldamótmælunum í dag. mbl.is