Líkir hernaðaraðgerðum við slagsmál tveggja krakka

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla um stöðuna á landamærum …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við fjölmiðla um stöðuna á landamærum Sýrlands og Tyrklands fyrir kosningafund í Texas. Trump líkti hernaðaraðgerðum Tyrkja við slagsmál tveggja krakka á skólalóð og sagði að best væri að „leyfa þeim að berjast aðeins áður en þú aðskilur þá“. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fagnar ákvörðun Tyrkja að láta tímabundið af hernaðaraðgerðum í norðurhluta Sýrlands. 

Tyrk­ir samþykktu í gær að láta af árás­um í norður­hluta Sýr­lands svo að her­sveit­ir Kúrda á svæðinu geti dregið herlið sitt til baka frá svo­kölluðu ör­ygg­is­svæði (e. safe zone). Vopna­hléið mun standa í 120 klukku­stund­ir. 

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, funduðu með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í um tvo klukkutíma í gær og virðist fundurinn hafa skilað árangri. Trump eignar sér hins vegar heiðurinn af vopnahléinu og útskýrði það fyrir blaðamönnum í Texas í gær þar sem hann sagði aðgerðir sínar óhefðbundnar. 

„Þeir þurfa að berjast aðeins. Eins og tveir krakkar verður þú að leyfa þeim að slást áður en þú aðskilur þá,“ sagði Trump og líkti þannig átökunum á landamærum Sýrlands og Tyrklands við slagsmál á skólalóð. 

„Þeir börðust í nokkra daga og það var frekar grimmilegt,“ bætti Trump við. 

Yfir 500 manns hafa látist í hernaðaraðgerðum Tyrkja, þar af tugir almennra borgara, flestir Kúrdar. Yfir 300 þúsund manns hafa þurft að flýja átakasvæðin og eru á vergangi, samkvæmt upplýsingum frá bresku mannúðarsam­tökunum Syri­an Observatory for Hum­an Rights (SOHR). 

Yfir 500 manns hafa látist í hernaðaraðgerðum Tyrkja og yfir …
Yfir 500 manns hafa látist í hernaðaraðgerðum Tyrkja og yfir 300 þúsund manns hafa þurft að flýja átakasvæðin og eru á vergangi. AFP

„Frábær dagur“

Trump lagði áherslu á að „ekki dropa af bandarísku blóði hefði verið úthelt í átökunum. Hann sagði gærdaginn „frábæran fyrir Tyrki og Kúrda“ með ákvörðun Tyrkja um fimm daga vopnahlé. „Þetta eru aðstæður þar sem allir eru hamingjusamir,“ bætti Trump við. 

Trump lofsamaði Erdogan og sagði að Bandaríkjastjórn hefði bara þurft að sýna Tyrkjum smá staðfestu, svo sem með refsiaðgerðum, sem hafa verið afturkallaðar í kjölfar vopnahlésins.

„Hann er frábær leiðtogi. Hann gerði það rétta í stöðunni,“ sagði Trump um Erdogan. 

mbl.is