Rekinn vegna umdeildrar Twitter-færslu?

Mótmælendur í Hong Kong segja kínversk stjórnvöld vega að tjáningarfrelsi …
Mótmælendur í Hong Kong segja kínversk stjórnvöld vega að tjáningarfrelsi framkvæmdastjóra Houston Rockets. AFP

Kínversk stjórnvöld neita því að þau hafi krafist þess af NBA-deildinni að fram­kvæmda­stjóri Hou­st­on Rockets, Daryl Mor­ey, yrði rekinn úr starfi. Mikil spenna hefur myndast eftir að Morey setti stuðnings­yf­ir­lýs­ingu til mót­mæl­enda í Hong Kong á Twitter í byrjun mánaðarins.

Mót­mæli hafa staðið yfir reglu­lega í Hong Kong síðan snemma í júní og hef­ur of­beldi færst í auk­ana und­an­farið. Upp­haf ­þeirra má rekja til laga­frum­varps, sem kynnt var í apríl, sem heim­ila átti framsal meintra brota­manna til meg­in­lands Kína. Þau þróuðust síðan í ákall um aukn­ar lýðræðis­um­bæt­ur og að kín­versk stjórn­völd létu sjálfs­stjórn­ar­borg­ina af­skipta­lausa. 

„Berjist fyrir frelsi, standið með Hong Kong,“ skrifaði Morey í færslunni umdeildu sem var fjarlægð fljótlega eftir birtingu. 

NBA-liðin Los Angeles Lakers og Brooklyn Nets léku sýningarleiki í Kína skömmu eftir færslu Morey. Ýmsum viðburðum í tengslum við leikina var aflýst og þá hætti kínverska ríkissjónvarpsstöðin CCTV við að sýna leikinn í beinni útsendingu.

Þá drógu ýmsir kínverskir styrktaraðilar úr stuðningi við NBA-deildina en tap deildarinnar af þeim sökum er mikið.

Afstaða mótmælenda er skýr.
Afstaða mótmælenda er skýr. AFP

Adam Sil­ver, fram­kvæmda­stjóri NBA-deild­ar­inn­ar, greindi frá því í gær að kínversk stjórnvöld hefðu óskað eftir því að Morey yrði látinn fjúka.

Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði þarlendum fréttamönnum í morgun að Silver færi ekki með rétt mál. „Kínverska ríkisstjórnin hefur aldrei farið fram á slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert