Unglingur tekinn fyrir barnaníðsfrétt

Tæknimenn lögreglu og Dagbladet brugðu skjótt við á fimmtudagskvöldið og …
Tæknimenn lögreglu og Dagbladet brugðu skjótt við á fimmtudagskvöldið og að lokum kom IP-tala upp úr kafinu sem ekki var hægt að tengja við neinn blaðamanna Dagbladet í fljótu bragði. Ljósmynd/Wikipedia.org/Colin

Lögreglan í Ósló hefur haft hendur í hári ungmennis undir lögaldri sem grunað er um að bera ábyrgð á því þegar fyrirsögn fréttar um innbrotafaraldur í BMW-bifreiðar í Ósló breyttist skyndilega síðdegis á fimmtudag í að Erna Solberg forsætisráðherra teldi barnaníð í góðu lagi svo lengi sem sæði færi ekki á barnið. Lokaði Aller Media, útgáfufélag Dagbladet, vefsíðu blaðsins auk tveggja annarra síðna þar sem einnig hafði verið átt við efni.

Óslóarlögreglan greinir frá málinu í fréttatilkynningu í dag og segir rafræna slóð hafa verið rakta til persónunnar sem nú liggur undir grun, en vill hvorki greina frá kyni viðkomandi, aldri né nokkru öðru þar sem um barn er að ræða samkvæmt lögum. Rune Skjold, deildarstjóri fjármálabrota- og sérrannsóknardeildar (n. finans og spesialetterforskning) lögreglunnar í Ósló, gefur það eitt upp að tölvugrúskari þessi búi rétt utan við höfuðborgina. Aðeins dagblaðið VG segir að um dreng sé að ræða og hefur óneitanlega tölfræðina í liði með sér í þessum brotaflokki.

Tæknimenn lögreglu og Dagbladet brugðu skjótt við á fimmtudaginn og fínkembdu tölvukerfi fjölmiðilsins þar til upp úr kafinu kom IP-tala tölvu sem ekki var í fljótu bragði hægt að tengja við neinn starfsmanna Dagbladet.

Ekki handtekinn aldurs vegna

Lögregla fann í kjölfarið heimilisfang og hittist ungmennið, sem nú er grunað, þar fyrir. Var tölvubúnaður unglingsins þegar gerður upptækur en hann þó ekki handtekinn aldurs vegna. Skjold segir yfirheyrslu nú vera næsta skref í málinu sem er flóknara mál þegar fullorðinn einstaklingur á ekki í hlut. Forráðamanni grunaða skal þá gefinn kostur á að vera til staðar þótt ekki sé skilyrði að hann sé það auk þess sem barnaverndarnefnd viðkomandi sveitarfélags skal boðið að hafa fulltrúa við yfirheyrsluna sem þó er heldur ekki skilyrði samkvæmt norskum hegningarlögum.

„Það gleður okkur hve fljótt þetta gekk fyrir sig,“ segir Dag Sørsdahl, forstjóri Aller Media, í samtali við norska fjölmiðla í dag. „Lögreglan gekk fagmannlega fram og við erum mjög ánægð með samskiptin við hana.“

Ekki er talið örgrannt um að innbrotið í vefumsjónarkerfi Dagbladet tengist nýlegum þjófnaði á 600.000 lykilorðum, þar af 2.702 í eigu blaða- og fréttamanna Adresseavisen, Aftenposten, Dagbladet, NRK og VG, sem Adresseavisen (vefsíða læst öðrum en áskrifendum) greindi frá nú í vikunni. Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða fyrr en lögregla hefur rannsakað tölvubúnaðinn sem hún gerði upptækan í tengslum við mál Dagbladet.

Ljóst er að tjón Dagbladet vegna málsins er umtalsvert en netsíða blaðsins var lokuð í þrjár klukkustundir á fimmtudagskvöld vegna málsins. Dag Sørsdahl segir öryggismál fjölmiðilsins nú verða fínkembd í kjölfar málsins en reyndar hafi ýmsar uppfærslur verið gerðar í veföryggismálum í vikunni en þær hafi ekki allar verið orðnar virkar þegar fyrirsögnin um meint viðhorf Ernu Solberg forsætisráðherra gagnvart barnaníði leit dagsins ljós.

Dagbladet

VG

NRK

Medier24

TV2

mbl.is