Starfsmenn Boeing vissu af vandamálum MCAS

737 vélar Boeing á vegum Southwest Airlines sem hafa verið …
737 vélar Boeing á vegum Southwest Airlines sem hafa verið kyrrsettar eins og vélar sömu tegundar á heimsvísu frá því í mars. AFP

Starfsmenn flugvélaframleiðandans Boeing skiptust á skilaboðum sem fjölluðu um vandamál vegna sjálfvirka öryggiskerfisins á 737 Max vélum fyrirtækisins skömmu áður en vélarnar fengu vottun árið 2016. 

Í skjölum sem Boeing hefur afhent löggjafanum vegna komandi réttarhalda kom fram að flugmaður hefði lent í óvæntum vandræðum á meðan prófun vélarinnar stóð. Hann sagði eftir á að hann hafi ómeðvitað logið að eftirlitsaðilum. 

Tvö  flugslys sem ollu 346 dauðsföllum hafa verið tengd við öryggiskerfi vélanna. 737 Max vél á vegum Ethiopian Airlines fórst örfáum mínútum eftir að hún tók á loft frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, í mars síðastliðnum. Þá létust allir sem um borð voru, 157 manns. 

Sama tegund flugvélar á vegum indónesíska flugfélagsins Lion Air fórst í hafinu fimm mánuðum fyrr, í október í fyrra, stuttu eftir að vélin tók á loft frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Í því slysi létust 189 einstaklingar. 

Gögnin áhyggjuefni

Alþjóðlega flugmálastofnunin, FAA, sagði gögn vegna slysanna áhyggjuefni. Stofnunin bað Boeing um tafarlausar skýringar á töfum sem höfðu orðið á skilum Boeing á gögnum til löggjafans vegna réttarhalda sem eru haldin í þessum mánuði. 

Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing, á að bera vitni í réttarhöldunum. Hann var nýlega sviptur titli sínum sem formaður stjórnar fyrirtækisins þó hann sé enn æðsti maður í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing var nýlega sviptur titli sínum sem …
Dennis Muilenburg, forstjóri Boeing var nýlega sviptur titli sínum sem formaður stjórnar fyrirtækisins. AFP

Boeing hefur gefið það út að fyrirtækið sé samstarfsþýtt vegna rannsóknarinnar á 737 Max vélunum sem voru kyrrsettar á heimsvísu í mars síðastliðnum í kjölfar seinna flugslyssins. 

Boeing tilkynnti nýlega um varanlega öryggisnefnd sem skyldi hafa umsjón með þróun, framleiðslu og rekstri flugvéla og þjónustu.

„Við munum áfram fylgja leiðbeiningum FAA og annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila á meðan við vinnum að því að koma 737 MAX í loftið á nýjan leik með öruggum hætti,“ sagði í tilkynningu frá Boeing. 

Rannsakendur flugslysanna hafa lagt áherslu á hlutverk hugbúnaðarkerfisins MCAS (Manoeuvring Characteristics Augmentation System) sem var hannað til þess að auðveldara væri að fljúga vélunum. 

MCAS líklegur sökudólgur

Rannsóknir á hugbúnaðnum hafa leitt í ljós að hugbúnaðurinn og bilun skynjara ollu því að flugmenn gátu ekki stjórnað flugvélunum.

Boeing hefur skellt skuldinni á röng gögn sem hafa farið inn í kerfið. Fyrirtækið hefur sagt að það sé að endurskoða hugbúnað vélarinnar til að bæta öryggisráðstafanir. 

Bæði FAA og Boeing hafa verið gagnrýnd fyrir ófullnægjandi eftirlit með áhættunum sem fylgja MCAS. 

Boeing afhjúpaði áðurnefnd skilaboð frá 2016 fyrir nokkrum mánuðum. Flugmaðurinn sem þau sendi vinnur ekki lengur hjá fyrirtækinu. 

Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu meira en 5% í kjölfar þessara frétta sem bárust í gær. 

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina