Takk Clinton, „persónugervingur hins rotna“

Tulsi Gabbard, frambjóðandi í forvali demókrata, og Hillary Clinton, fyrrverandi …
Tulsi Gabbard, frambjóðandi í forvali demókrata, og Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandi. Ljósmynd/Samsett

Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, segir að Rússar séu um þessar mundir að búa einn frambjóðanda í forvali Demókrataflokksins undir að fara í framboð á eigin vegum (e. third party candidacy). 

Þótt Clinton nefni frambjóðandann á nafn má telja ljóst að um sé að ræða fulltrúadeildarþingmanninn Tulsi Gabbard frá Havaí, en henni hefur verið legið á hálsi of vinalegt viðmót í garð rússneskra stjórnvalda í gegnum tíðina.

„Ég ætla ekki að spá fyrir um neitt, en ég held að þeir hafi auga á einhverjum sem er núna í forvali demókrata og séu að reyna að búa hana undir framboð á eigin vegum,“ sagði Clinton í hlaðvarpsþætti David Plouffe, fyrrverandi ráðgjafa Obama forseta, og bætti við „Hún er uppáhaldið þeirra.“

Tulsi Gabbard á kosningafundi í Manchester í New Hampshire.
Tulsi Gabbard á kosningafundi í Manchester í New Hampshire. AFP

Clinton sýni sitt rétta andlit

Fimm konur bjóða sig fram í forvalinu: Gabbard, Kamala Harris, Elizabeth Warren, Amy Klobuchar og Marianne Williamson, en Gabbard er sú eina sem sökuð hefur verið um sérstök tengsl við Rússa.

Clinton og teymi hennar hafa áður bent á að rússneskar fréttasíður og áróðursveitur hafi oft flutt fréttir af kosningabaráttu Gabbard og uppákomum á kosningafundum hennar, og segja gerviaðganga á samfélagsmiðlum hafa haldið slíkum fréttum á lofti.

Gabbard svaraði Clinton fullum hálsi á Twitter í gærkvöldi:

„Takk fyrir, Hillary Clinton. Þú, drottning stríðsæsingamanna, holdgervingur spillingar og persónugervingur hins rotna sem hefur sýkt Demókrataflokkinn svo lengi, hefur loksins sýnt þitt rétta andlit,“ sagði Gabbard, sem er sjálf fyrrverandi hermaður. Hún hefur áður þvertekið fyrir að fara í sjálfstætt framboð, fari svo að hún hljóti ekki útnefningu Demókrataflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert